Hvers vegna vill ríkisstjórnin ekki vinna með Rauða krossinum?

Rauði kross­inn hefur um áraraðir verið með samn­ing við dóms­mála­ráðu­neytið um að sinna mik­il­vægu starfi í þágu þeirra sem sækja um alþjóð­lega vernd á Íslandi. Rauði kross­inn vildi fram­lengja samn­ing­inn en svar dóms­mála­ráð­herra var nei. Eðli­lega hefur sú frétt valdið undr­un. En stundum eru hlut­irnir ekk­ert flókn­ari en þeir virð­ast. Hvers vegna vill rík­is­stjórnin ekki samn­ing við Rauða kross­inn um rétt­ar­að­stoð við fólk sem sækir um alþjóð­lega vernd á Íslandi? Hvers vegna tekur dóms­mála­ráð­herra skref sem mun gera þessu fólki erf­ið­ara um vik í nýjum aðstæð­um?

Svarið er jafn ein­falt og það virð­ist

Með þessu skrefi er dóms­mála­ráð­herra ein­fald­lega að vinna eftir hug­mynda­fræði um að þrengja að því fólki sem sækir um alþjóð­lega vernd. Málið varðar fólk sem í mörgum til­vikum hefur lagt á sig langt ferða­lag úr ömur­legum aðstæð­um. Og rétt þessa fólks á aðstoð frá Rauða kross­inum til að átta sig á rétt­ar­stöð­unni í nýju landi og til að þiggja félags­legan stuðn­ing félaga­sam­tak­anna. Það hefur þótt kostur að einmitt Rauði kross­inn gegni þessu hlut­verki, félaga­sam­tök sem flestir þekkja og bera jafn­framt traust til.

Margir Íslend­ingar hafa reynslu af því að búa ein­hvern hluta lífs­ins í öðru landi. Þekkja hvað það getur tekið á að byrja upp á nýtt í nýju landi, læra nýtt tungu­mál, skilja fram­andi regl­ur, aðlaga börn að breyttum aðstæð­um. Íslend­ingar eiga hins vegar bless­un­ar­lega ekki þá reynslu að takast á við þetta í kjöl­far þess að hafa þurft að flýja sitt heima­land. Það er aftur á móti reynsla margra þeirra sem hingað koma.

Það er tæpur ára­tugur síðan stjórn­völd ákváðu að fólk sem kæmi hingað í leit að alþjóð­legri vernd skyldi fá lög­fræði­að­stoð sér að kostn­að­ar­lausu. Gerður var samn­ingur við Rauða kross­inn árið 2014 með það að mark­miði að tryggja fag­lega og óháða rétt­ar­gæslu og jafn­framt jafn­ræði fólks í þessum spor­um. Síðan þá hefur Rauði kross­inn byggt upp mik­il­væga fag­þekk­ingu á svið­inu. Sam­tökin sinna lög­fræði­að­stoð og veita félags­legan stuðn­ing; gæta hags­muna fólks á meðan það bíður nið­­ur­­stöðu eða bíður flutn­ings úr landi.

Sam­hæfð þjón­usta stuðlar að styttri máls­með­ferð

Frá upp­hafi var áhersla lögð á mik­il­vægi þess að þessi tals­manna­þjón­usta ætti að vera aðgengi­leg. Í því sam­hengi er auð­vitað mik­ill kostur að upp­lýs­ing­ar, rétt­ar­að­stoð og stuðn­ingur sé á einum stað. Annað grund­vall­ar­mark­mið var að stytta máls­með­ferð­ar­tíma og tryggja sem besta nýt­ingu fjár­magns. Mark­miðið um að stytta máls­með­ferð­ar­tíma og nýt­ingu fjár­magns þótti best náð með því að sam­hæfa þjón­ustu og hafa hana alla á einum stað. Þáver­andi inn­an­rík­is­ráð­herra Hanna Birna Krist­jáns­dóttir sagði um samn­ing­inn við Rauða kross­inn árið 2014 að það væri til til marks um vand­aða vinnu ráðu­neyt­is­ins í mála­flokknum að Rauði kross­inn yrði helsti sam­starfs­að­ili ráðu­neyt­is­ins á þessu sviði. Aðkoma Rauða kross­ins hefði mikla þýð­ingu „ekki aðeins vegna þeirrar þekk­ingar og reynslu sem sam­tökin hafa af mál­efnum tengdum inn­flytj­end­um, heldur einnig vegna þeirra gilda og fag­mennsku sem ein­kenna störf samtak­anna. Hér er um að ræða mikil tíma­mót í þessum mála­flokki“, voru orð ráð­herr­ans. Nú tekur nýr dóms­mála­ráð­herra póli­tíska ákvörðun sem fer algjör­lega gegn þessu mark­miði.

Af hálfu Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa ráð­herrar í gegnum árin talað um kerfið eigi að vera skil­virkt og máls­með­ferð hrað­ari. Það er sann­ar­lega mik­il­vægt mark­mið. Það má hins vegar algjör­lega gefa sér að máls­með­ferðin mun lengj­ast við þessa ákvörðun dóms­mála­ráð­herra. Þegar aftengja á alla fag­þekk­ingu sem er fyrir hendi innan Rauða kross­ins og Útlend­inga­stofnun mun standa frammi fyrir því að finna til­tæka lög­menn fyrir hvert ein­asta við­tal og hvert ein­asta mál. Og það mun sömu­leiðis fram­kalla tafir þegar fólk í nýju landi þarf eitt síns liðs að afla allra upp­lýs­inga án stuðn­ings stjórn­valda.

Mark­miðið um skil­virkara kerfi og hrað­ari máls­með­ferð er því ekki lengur það sem mestu máli skipt­ir. En hvað er það þá?

Póli­tíkin er skýr

Póli­tíkin að baki þess­ari breyt­ingu er skýr. Það á að veikja stöðu þeirra sem sækja um alþjóð­lega vernd með því að draga úr aðgengi að rétt­ar­að­stoð og stuðn­ingi. Með því að hverfa frá því að þjón­usta í þágu ber­skjald­aðs fólks verði á einum stað. Hverjar verða til dæmis aðstæður þeirra sem nú þegar er með mál til með­ferðar þegar Rauði kross­inn hverfur núna frá borði?

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var með þennan mála­flokk allt síð­asta kjör­tíma­bil. Vinstri græn og Fram­sókn virð­ast í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum ekki hafa kallað eftir breyt­ingum á fyr­ir­komu­lagi um rétt­ara­stoð við þessa umsækj­end­ur. Þrátt fyrir að flokk­arnir hafi tekið sér mjög langan tíma í við­ræð­ur, gert miklar breyt­ingar á ráð­herra­emb­ættum og raunar farið í algjöra upp­stokkun á stjórn­ar­ráð­inu, þá virð­ist ekki hafa þótt ástæða til að end­ur­skoða málin í þessum mála­flokki. Að hvorki VG né Fram­sókn hafi samið um mild­ari nálgun í þessum mála­flokki eru tíð­indi út af fyrir sig. Ákvörðun dóms­mála­ráð­herra um að end­ur­nýja ekki samn­ing við Rauða kross­inn í þágu fólks í við­kvæmri stöðu hlýtur þó að kalla á svör ann­arra ráð­herra. Styður Guð­mundur Ingi Guð­brands­son félags­málaráð­herra þessa hug­mynda­fræði um rétt­ar­að­stoð við fólk sem hingað leitar eftir alþjóð­legri vernd? Er þetta afstaða sem Ásmundur Einar Daða­son sér­stakur tals­maður barna í rík­is­stjórn­inni tekur und­ir? Er Katrín Jak­obs­dóttir þeirrar skoð­unar að fólk eigi ekki lengur að fá rétt­ar­stoð og stuðn­ing frá Rauða kross­in­um?

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 17. febrúar 2022