Súrefni fyrir samkeppni

Góð umgjörð um samkeppni í viðskiptum skilar neytendum betri þjónustu, fjölbreyttari vöru og sanngjarnara verði. Samkeppni stuðlar einnig að nýsköpun og þar með nýjum verðmætum fyrir samfélagið okkar. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki við að efla og vernda samkeppni hvar sem því verður komið við og er ég stolt af því að tilheyra stjórnmálaflokki sem lætur sig þessi mál miklu varða. Mikilvægustu verðmætin verða til í umhverfi sem örvar einstaklinga til að vinna í takti við þarfir samfélags hvers tíma. Góð atvinnustefna styður því við nýsköpun, hagkvæmni og skilvirkni fyrir hið opinbera og fyrir einkaaðila.

Í bókinni The Entrepreneurial State: Debunking Public vs. Private Sector Myths, eftir hagfræðinginn Mariana Mazzucato, eru færð rök fyrir því að meiriháttar tæknibreytingar undanfarinna ára hafi verið fjármagnaðar beint og óbeint af hinu opinbera. Á bak við mikilvægar tæknibreytingar sé ekki aðeins hugrakkur forstjóri fyrirtækis eða áhættufjárfestir heldur hafi þarfir samfélagsins knúið þær áfram og um leið stutt við einkaframtakið.

Mazzucato nefnir að hlutar snjallsímans sem gera hann að snjallsíma; snertiskjáir, internetið, hafi verið þróaðir af varnarmálaráðuneytinu. Rafhlöðutækni Tesla og sólarrafhlöður komu frá styrk bandaríska orkumálaráðuneytisins og svo mætti lengi telja.

Viðreisn hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að stjórnvöld láti meta hvaða atvinnurekstur opinberra stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins sem teljist vera í samkeppni við einkaaðila sé nauðsynlegur til að þjóna hagsmunum samfélagsins. Tillagan gerir ráð fyrir því að fjármálaráðherra leggi í framhaldinu fram aðgerðaáætlun til að draga úr samkeppni ríkisins þegar kemur að rekstri sem ekki telst nauðsynlegur almannahagsmunum. Þetta þurfa sveitarfélög einnig að gera.

Ég tel mig réttu manneskjuna til að leiða stefnu Viðreisnar í borginni og brýnt að koma þeirri stefnu í framkvæmd. Sköpum réttlátt samfélag, þar sem almannahagsmunir ganga alltaf framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. febrúar 2022