Allir með

Mörg gleðjast þegar sumarið kemur og hugsa til þess með gleði að geta nú verið meira úti og varið tíma með fjölskyldunni í sumarfríinu. Aðstæður fólks eru mismunandi og því nauðsynlegt að hver og einn geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Stefna Reykjavíkurborgar er að búa til borg þar sem markmiðið er að gæta jafnréttis fyrir sem flesta borgara. En er það raunin?

Á mörgum stöðum í höfuðborginni má finna opin leik- og afþreyingarsvæði sem eru hugsuð til að sem flest geti notið. Þó má ekki gleymast að ýmislegt getur gerst í lífi fólks sem verður til þess að það þarf aðstoð eða aðlögun til að geta notið afþreyingar.

Fólk með fötlun er hópur sem nauðsynlegt er að hugsa um til jafns við aðra borgara.

Á mörgum leiksvæðum og öðrum opnum svæðum er takmarkað aðgengi fyrir fólk með fötlun. Fyrir fáeinum árum var sett upp hjólastólaróla á skólalóð sérskóla í borginni sem var kærkomin lausn fyrir fólk í hjólastól til að róla. En staðreyndin er að hún þjónar einungis ákveðnum hópi sem veit af henni.

Nauðsynlegt væri að koma upp fleiri aðgengilegum leik- og afþreyingartækjum á opnum svæðum í borginni sem gætu nýst allan ársins hring. Í því samhengi þyrfti að skoða hvaða afþreying er vinsæl á hverjum tíma fyrir sig og gera áætlun um aðgengilega afþreyingu eftir því. Annað dæmi um þetta er skiptiaðstaða fyrir eldri einstaklinga.

Oft þurfa einstaklingar með fötlun að nota bleyjur langt fram á fullorðinsár, en staðreyndin er að erfitt getur verið fyrir marga einstaklinga í þessum aðstæðum að fara langt frá heimili sínu þar sem skortur er á skiptiaðstöðu fyrir þau á salernum sem ætluð eru fólki með fötlun. Með því að bæta úr þessu væri félagsleg einangrun fatlaðra einnig rofin að einhverju leyti.

Dæmi eru um að önnur sveitarfélög hafi sett upp hjólastólarólur eða önnur aðgengileg afþreyingartæki á opin svæði. Þar hefur það gefið góða raun. Að bæta við slíkum tækjum og skiptiaðstöðu fyrir fullorðna myndi styrkja stöðu Reykjavíkur sem aðgengilegrar borgar og einnig fylgja eftir þeim alþjóðasamningum sem Ísland hefur orðið aðili að á sviði málefna fatlaðra og jafnréttis á undanförnum árum. Það geta allir leikið sér.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. apríl 2022