Nærum jarð­veg fyrir blóm­legt at­vinnu­líf

Við erum öll sammála um að atvinna og nýsköpun eigi að blómstra í Reykjavík. Þess vegna samþykkti borgarstjórn í vikunni nýja atvinnu- og nýsköpunarstefnu eftir gott, þverpólitískt samstarf með aðkomu atvinnulífsins, nýsköpunargeirans og almennings. En til að svo megi vera þarf að næra jarðveginn.

Þess vegna voru einnig 12 skilgreindar aðgerðir lagðar fram með, sem sýna hvernig við ætlum að næra jarðveginn fyrir blómstrandi atvinnu og nýsköpun. Sumar snúa að borginni sjálfri og hvernig hún ætlar að nýta fjármagn sitt, til dæmis að verja skilgreindu hlutfalli í umbóta- og nýsköpunarverkefni og að endurskoða innkaup sín til að efla samkeppni og auka fjölbreytni birgja. Og við höfum aðgerðir til að bæta samtal á milli borgarinnar og atvinnulífsins svo að við getum betur gengið saman að því að byggja upp enn blómlegra atvinnulíf.

Það eru tvær aðgerðir sem ég er spenntust fyrir og held að muni gera mest til að einfalda líf okkar sem íbúa og atvinnurekenda. Annars vegar að útbúa rafrænan vettvang fyrir fyrirtæki til að sækja þjónustu hjá borginni í samræmi við hugmyndafræði „Once-only“. Þetta hefur lengi verið stefna Evrópusambandsins í samskiptum við borgara, stofnanir og fyrirtæki til að einfalda stjórnsýsluna verulega. Með slíkri breytingu þarf bara einu sinni að skila inn grunnupplýsingum um sig. Kerfi borgarinnar eigi svo að sjá til þess að þessar upplýsingar séu aðgengilegar. Þetta mun spara fjölmörg spor og pappírsbunka í samskiptum við borgina.

Hitt atriðið er að efla atvinnulíf inni í hverfum borgarinnar. Hugmyndafræðin á bak við þéttingu byggðar snýst um að með fleiri íbúum hverfis sé kominn grundvöllur fyrir aukna nærþjónustu í hverfinu. Það er einnig að fólk eigi þess kost að starfa innan hverfis. Með aukinni nærþjónustu og dreifingu vinnustaða dregur úr umferðarþunga á stærstu umferðaræðunum og okkur líður betur á leið til vinnu.

Stefna er fyrirheit en það sem máli skiptir er að koma þessum aðgerðum til framkvæmda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. apríl 2022