Verbúðin Ísland

Fiskarnir í sjónum eiga sig sjálfir, vissulega. Verðmætið sem felst í nytjastofnum kringum landið tilheyrir þó íslensku þjóðinni að lögum.

Þessi saga okkar er skrautleg og við fengum tækifæri til að rifja hana upp í Verbúðarþáttunum sem voru sýndir á RÚV í vetur. Veiðarnar, vinnsluna og lífið í kringum fiskinn. Áður en kvótakerfið var sett á fót var ástand fiskistofnanna slæmt, síldin hafði hrunið og við þurftum nauðsynlega að vernda aðra stofna. Ákvarðanir voru teknar út frá vísindalegum forsendum og í kjölfarið jókst framleiðni, hagræðing og verðmætasköpun útgerða.

Á hinum pólitíska vettvangi og af hagsmunaaðilum er þó stunduð ákveðin gaslýsing þegar látið er að því liggja að sárið hjá þjóðinni snúist um þetta fyrirkomulag veiða. Líkt og allir vita snýst ágreiningurinn ekki um það heldur hvað þjóðin fær fyrir sinn hlut af þjóðareigninni sem sjávarauðlindin er.

Útgerðirnar hafa notið mikils ávinnings af kvótakerfinu. Greinin ber höfuð og herðar yfir aðrar atvinnugreinar þegar kemur að arðsemi, fjárhagslegum styrk og aðgengi að erlendu fjármagni. Aðgangur að nær ókeypis auðlind hjálpar mikið til. Fyrir vikið hefur eignarhald útgerða og tengdra aðila stóraukist í óskyldum atvinnurekstri. Á það er varpaði ljósi í skýrslu sem ég hafði forgöngu um að Alþingi óskaði eftir á síðasta ári. Skýrsla sjávarútvegsráðherra varð því miður ekki eins upplýsandi og um var beðið en upplýsti þó að á fjögurra ára tímabili 2016-2019 hækkaði bókfærður eignarhluti stærstu útgerðarfélaga í almennum atvinnurekstri úr 138 milljörðum króna í 177 milljarða. Útgerðin fjárfesti þannig í alls óskyldum atvinnurekstri með tilheyrandi viðbótarítökum í íslensku samfélagi fyrir töluvert hærri fjárhæðir en námu veiðigjöldum á greinina. Hér er einfaldlega rangt gefið.

Viðreisn hefur talað fyrir eðlilegu gjaldi fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni í gegnum markaðsgjald. Við viljum að ákveðinn hluti kvótans sé settur á opinn markað á hverju ári sem mun skila íslensku þjóðarbúi talsvert hærri tekjum en núverandi veiðigjaldakerfi. Um 77% þjóðarinnar eru sammála þeirri leið samkvæmt nýlegri könnun Gallup. Á móti eru aðeins 7,1% þjóðarinnar en samt er sú leið valin. Við höfum einnig talað fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá, tímabindingu veiðiréttinda og nýjum reglum sem bæta gegnsæi í greininni, hindra of mikla samþjöppun og tryggja dreifða eignaraðild. Frumvörpin eru til, Viðreisn hefur séð til þess.

Nú stendur yfir fundaherferð á vegum Viðreisnar undir yfirskriftinni Verbúðin Ísland. Þar förum við yfir þessa sögu, hvað hefur vel tekist með kvótakerfinu og hvað þurfi að bæta. Viðtökurnar sýna að þetta réttlætismál sem brennur á fólki. Hvað þarf til að stjórnvöld bregðist við?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. apríl 2022