Pils­falda­kapítal­ismi sjávar­út­vegsins

Við­reisn hefur á síðustu mánuðum sett vaxandi þunga í um­ræður um frjáls­lyndar um­bætur í sjávar­­út­vegi. Mark­miðið er annars vegar að tryggja rétt­látari skipan mála með eðli­legu endur­gjaldi fyrir einka­rétt til veiða og hins vegar að eyða ó­vissu um gildis­tíma hans.

Þannig verði þjóðar­eignin virkari en um leið er réttar­staða út­gerðanna gerð skýrari og öruggari.

Brestir í vörninni um kyrr­stöðu

Skoðana­kannanir sýna aukinn þunga í kröfum al­mennings um breytingar. Um­ræðan hefur á­hrif.

Kröfunni um gæslu heildar­hags­muna, al­mennings og sjávar­út­vegs, vex ein­fald­lega fiskur um hrygg.

Mat­væla­ráð­herra, sem staðið hefur gegn öllum um­bótum í fimm ár, notar nú sterku orðin og segist brenna fyrir auknu rétt­læti. Ráð­herrar Fram­sóknar tala svo í­trekað um nauð­syn þess að hækka veiði­gjaldið.

Þetta eru skýr dæmi um að brestir eru að koma í varð­stöðuna um á­fram­haldandi kyrr­stöðu.

Veik­leikinn í vörninni fyrir ó­breytt á­stand birtast líka í vaxandi þver­sögnum tals­manna SFS.

Pólitískt en ekki laga­legt öryggi

Varan­leiki og fyrir­sjáan­leiki eru lykil­hug­tök í þessari um­ræðu. Tals­menn SFS segja breytingar af hinu illa af því að þær myndu eyða varan­leika veiði­réttarins og fyrir­sjáan­leika í rekstri. En er þetta svo?

Fisk­veiði­stjórnunar­lögin kveða af­dráttar­laust á um að afla­hlut­deildina megi aftur­kalla hve­nær sem er. Þau gera ekki einu sinni kröfu um að það sé gert með fyrir­vara.

Þetta er á­stæðan fyrir því að hlutur smá­báta er nú miklu stærri en í byrjun. Þessi réttur hefur ekki verið mikið nýttur um­fram þetta.

Varan­leikinn og fyrir­sjáan­leikinn byggja því ekki á laga­legum rétti. Að þessu leyti eiga út­gerðirnar allt undir pólitískri af­stöðu Al­þingis á hverjum tíma. Þetta er pólitískt öryggi en ekki réttar­öryggi.

Hvers virði er laga­legt öryggi?

Til­lögur Við­reisnar gera aftur á móti ráð fyrir að gerðir verði einka­réttar­legir samningar um afla­hlut­deild til 20 ára. Tíminn er af­markaður en rétturinn er á móti laga­lega varinn. Fyrir­sjáan­leikinn er miklu meiri og ekki háður pólitískum geð­þótta.

En há­degis­verðurinn er ekki ó­keypis. Út­gerðirnar þurfa að kaupa bætta laga­lega réttar­stöðu. Þannig yrðu einka­réttar­legir samningar um 5 prósent af afla­hlut­deildum til sölu á frjálsum markaði ár­lega. Þar fæst það verð sem út­gerðirnar sjálfar telja eðli­legt.

En af hverju vilja út­gerðirnar frekar laga­lega ó­vissu? Á­stæðan er ein­föld. Í gegnum pólitísk ítök geta þær treyst því að þing­menn nú­verandi stjórnar­flokka muni á­kveða lægra endur­gjald en þær sjálfar myndu telja eðli­legt í sam­keppni á frjálsum markaði.

Réttar­öryggi um fyrir­sjáan­leika er ekki meira virði í þeirra huga.

Meiri af­leiðingar

Tals­menn SFS hafa fram til þessa rétti­lega lagt höfuð­á­herslu á að frjálst fram­sal afla­hlut­deildar sé lykillinn að þjóð­hags­legri hag­kvæmni sjávar­út­vegsins. Margar sjávar­byggðir hafa styrkst meðan að aðrar hafa látið undan síga.

Út­gerðirnar hafa einnig sagt að þjóð­hags­leg hag­kvæmni rétt­læti þessa þróun. Það er nú al­mennt viður­kennt.

Þegar Við­reisn leggur til að frjálst fram­sal verði aukið um 5% með ár­legum upp­boðum, snúa tals­menn út­gerðanna við blaðinu. Nú stað­hæfa þeir að af því frjálsa fram­sali muni hljótast al­gjör héraðs­brestur vítt og breitt um byggðir landsins. Og þing­menn stjórnar­flokkanna vatna músum með þeim.

Margir þing­menn vinstri flokkanna spiluðu þessa sömu plötu fyrir þrjá­tíu árum þegar frjálsa fram­salið var fyrst lög­fest. Það hafði lítil á­hrif. En þegar tals­kona út­gerðanna leikur nú á fyrstu fiðlu á sam­eigin­legum hræðslu­tón­leikum gegn auknu frjálsu fram­sali, kann það að hafa meiri af­leiðingar.

Á­giskun um niður­stöðu

Lík­legt er að niður­staðan úr 46 manna nefnda­flækju mat­væla­ráð­herra verði það pólitíska mat hennar að færa væna sneið, að minnsta kosti 10%, frá stærri út­gerðum til smá­báta. Hugsan­lega verður einnig skerpt á því á­kvæði sem tekur til tengdra aðila. En ekkert af­gerandi.

Þó að öll stóru málin verði látin ó­leyst mun þetta duga til að full­nægja brennandi rétt­lætis­kennd mat­væla­ráð­herra.

Þegar síðan kemur að þessu á síðasta þing­vetri fyrir kosningar mun ekkert heyrast í fyrstu fiðlu út­gerðanna. Því það verður ekki bæði hægt að tala um þjóð­hags­lega hag­kvæmni og héraðs­brestinn sem af henni hlýst. Og án eðli­legs endur­gjalds fyrir þennan einka­rétt út­gerðar á þjóðar­auð­lindinni verður heldur ekki unnt að gera kröfu um laga­legt öryggi. Hvað þá sam­fé­lags­lega sátt.

Gegn­sæ byggða­stefna

Það er eitt af grund­vallar­at­riðunum í stefnu Við­reisnar að sam­fé­lagið, sem hefur hagnast á frjálsa markaðs­kerfinu, þurfi að styðja við þær byggðir, sem hafa veikst af þeim sökum.

Við­reisn vill hins vegar ekki gera það með ó­gegn­sæjum hætti. Það á ekki að gera með allt of lágu gjaldi og ekki með tak­mörkunum á frjálsum við­skiptum. Það er pils­falda­kapítal­ismi.

Út­gerðin á að greiða fullt gjald, sem verður til á markaði. Sam­fé­lagið á að nota veru­legan hluta þess til að byggja upp inn­viða- og ný­sköpunar­sjóð fyrir lands­byggðirnar, einkum þær byggðir sem hafa veikst vegna hag­ræðingar í sjávar­út­vegi.

Fyrir meira en 20 árum var þetta ein af á­bendingum auð­linda­nefndar og hefði betur verið komin til fram­kvæmda fyrir löngu.

Þetta er frjáls­lynd markaðs­stefna með fé­lags­legri á­byrgð. Hún mun reynast far­sælli en pils­falda­kapítal­isminn, sem út­gerðirnar tala nú orðið fyrir og stjórnar­flokkarnir fylgja.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. ágúst 2022