Ruglandi

Heið­rún Lind Marteins­dóttir fram­kvæmda­stjóri SFS skrifar grein í Frétta­blaðið síðasta fimmtu­dag.

Þar lýsir hún þeirri skoðun í nafni út­gerðanna í landinu að þeim þyki sér­kenni­legt að frétta­stofa Stöðvar 2 skuli kalla for­mann þess stjórn­mála­flokks, sem mest fjallar um mál­efni sjávar­út­vegsins á Al­þingi, í við­tal um mál­efni sem snerta greinina.

Í stað rök­ræðu eiga frétta­menn að skilja að hátt­semi þeirra sé á­litin sér­kenni­leg ef þeir tala við stjórn­mála­menn, sem berg­mála ekki mál­flutning SFS. Hér eru sterkustu hags­muna­sam­tök landsins að beita ó­beinum á­hrifum til að loka fyrir frjálsa hugsun. Það er ógn við lýð­ræðið.

Síðan reynir fram­kvæmda­stjórinn að halda því fram að tví­skinnungur sé í þeirri stefnu Við­reisnar að selja 5 prósent afla­hlut­deildar á frjálsum markaði og þrengja um leið mögu­leika stærstu sjávar­út­vegs­fyrir­tækja til að auka afla­hlut­deild sína og fara yfir skil­greind mörk.

Tví­skinnungurinn felst þvert á móti í af­stöðu SFS. Þau segja að vernda verði litlu fyrir­tækin með ó­hóf­lega lágu auð­linda­gjaldi en leggjast síðan al­farið gegn því að hindrað verði að stóru fyrir­tækin geti snið­gengið reglur um há­marks afla­hlut­deild og að skil­greiningar á tengdum aðilum verði þrengdar.

Jafn­framt vilja þau að þorri sjávar­út­vegs­fyrir­tækja greiði ó­hóf­lega lágt gjald fyrir einka­rétt sinn til að nýta auð­lindina. Því annars sé jú ör­fáum lakast settu fyrir­tækjunum hætta búin.

Þetta er það sem kallað er pils­falda­kapítal­ismi. Annars vegar er þetta dul­búinn ríkis­stuðningur og hins vegar skálka­skjól til að af­saka að þorri at­vinnu­greinarinnar greiði eig­endum auð­lindarinnar, þjóðinni sjálfri, ekki rétt­látt gjald fyrir einka­réttinn.

Við­reisn treystir út­vegs­mönnum best til að á­kveða sjálfir eðli­legt verð fyrir einka­réttinn á frjálsum markaði.

Markaðs­bú­skapurinn tryggir fram­þróun og stöðuga endur­nýjun því allir þurfa að keppa við þá sem bestum árangri ná. Í því felst þjóð­hags­leg hag­kvæmni.

Við­reisn styður þetta lög­mál með skýrum og gegn­sæjum leik­reglum til þess að koma í veg fyrir að þeir sterkustu mis­noti að­stöðu sína. En SFS eru bæði með og á móti markaðs­bú­skap.

Þessi skrif þeirra minna mig á það sem meistari Þór­bergur kallaði ruglanda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. ágúst 2022