Mynstur gær­dagsins

Þorsteinn Pálsson

Ástæða þess að fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegu umhverfi sækja í þessa heimild er að þetta auðveldar samanburð á uppgjöri við samkeppnisaðila og eykur á allt gagnsæi.“

Þetta er skýring Svanhildar Hólm Valsdóttur framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs í Fréttablaðinu vegna fregna um mikla fjölgun fyrirtækja, sem yfirgefið hafa krónuna. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar kallaði eftir þessum upplýsingum til Alþingis.

Skýring framkvæmdastjórans er skotheld. Heimildin var mikilvæg umbreyting á sínum tíma. Hún þjónar samkeppnishagsmunum stórs hluta atvinnulífsins og heildarhagsmunum þjóðarbúsins.

Hólfaskipting

Þessar athyglisverðu upplýsingar vekja hins vegar spurningar um samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja og launafólks.

Fjöldi fyrirtækja með tekjur í krónum er í harðri samkeppni við erlenda keppinauta. En þau fá ekki að njóta þessa eftirsóknarverða hagræðis.

Innri markaður Evrópusambandsins er heimamarkaður allra íslenskra fyrirtækja. Og Ísland er hluti af heimamarkaði fyrirtækja annarra aðildarþjóða. Fjármagnsflutningar eru frjálsir og launafólk er á þessum opna og frjálsa samkeppnismarkaði.

Þjóðarbúskapurinn er samt sem áður í tveimur hólfum. Þetta er óréttlát mismunun, sem leiðir til meiri ókyrrðar á vinnumarkaði, hærri vaxta og minni framleiðni en í samkeppnislöndunum. Umbreytingaþörfin blasir við.

Svart og hvítt

Fyrir rúmum fimm árum var brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu þegar mynduð var ríkisstjórn flokka lengst til hægri og lengst til vinstri. Flokkar næst miðjunni hafa verið í stjórnarandstöðu síðan, nema Framsókn.

Fyrir jólahátíðina var mynduð ríkisstjórn í Danmörku, sem einnig braut upp áratuga mynstur í pólitík. Þar tóku höndum saman flokkar, sem standa næst miðjunni frá hægri og vinstri. Jaðarflokkarnir sitja í stjórnarandstöðu.

Málamiðlun jaðarflokkanna á Íslandi byggist á því að halda sem flestu í óbreyttu horfi. Það heitir að varðveita stöðugleika.

Í Danmörku byggist málamiðlun flokkanna næst miðju á umbreytingum; bættri samkeppnisstöðu atvinnulífsins og auknu frelsi í opinberri þjónustu.

Mismunurinn á hugmyndafræðinni er eins svart og hvítt.

Snjóboltinn

Árangur umbreytingastefnu dönsku ríkisstjórnarinnar á eftir að koma í ljós. Eftir fimm ár sjáum við aftur á móti glöggt hverju stöðugleikastefna okkar ríkisstjórnar hefur skilað.

Ríkisstjórnin segir réttilega að lífskjör hafi ekki rýrnað að marki. Hin hliðin á þeim peningi eru hagtölur um minnkandi framleiðni og aukinn viðskiptahalla. Þær segja þá sögu að lífskjörin eru að hluta til tekin að láni í erlendum gjaldeyri.

Hagspár benda til þess að hagvöxtur á næstu árum verði helmingi minni en á árinu sem er að kveðja. Gangi þær spár eftir er hætt við að lífskjaralínuritið hallist niður á við, nema lántökusnjóboltanum verði velt áfram til að halda því uppi.

Stöðugleikinn

Vaxtaútgjöld ríkissjóðs eru meiri en skuldugustu ríkja álfunnar. Engin áform eru um að taka á þeim kerfislega vanda.

Ekkert hefur verið hreyft við mismunandi samkeppnisstöðu fyrirtækja eftir því hvort þau starfa utan eða innan krónuhagkerfisins. Samkeppnisstaða milliríkjaviðskipta og erlendra fjárfestinga hefur versnað jafnt og þétt síðasta áratug samkvæmt erlendri rannsókn, sem Viðskiptaráð birti á árinu.

Miðstýringarkerfi landbúnaðarins er óhaggað. Umbreyting til markaðsgjalds fyrir einkarétt til auðlindanýtingar fæst ekki rædd.

Kyrrstöðusamstarfið hefur litlu skilað í loftslagsmálum. Fyrir vikið er Ísland að dragast aftur úr öðrum þjóðum að mati umhverfisráðherra sjálfs.

Metnaðarfull heilbrigðisáætlun til 2030 og aðkallandi krabbameinsáætlun til 2030 hafa legið í hart nær fjögur ár án tímasetninga og tengsla við fjármálaáætlun. Pólitíski stöðugleikinn kemur jafnvel í veg fyrir umbreytingar á því sviði, sem stendur hjarta fólks næst.

Mynstur morgundagsins

Ofan á annað hefur stöðugleikastefnan leitt til þess að afgerandi endurskoðun þjóðaröryggisstefnu með hliðsjón af nýjum ógnum í heimsmálum er pólitískur ómöguleiki.

Fyrst eftir rösklega tvö ár getur kyrrstöðumynstrið orðið að ríkisstjórn gærdagsins.

Ef að líkum lætur verður næsta stjórnarmynstur blanda af flokkum úr sitjandi stjórn og stjórnarandstöðu. En ríkari áhrif flokka næst miðju, frá hægri og vinstri, eru þó forsenda umbreytinga í atvinnulífi og velferðarkerfi.

Við þessi áramót má hafa hugfast að ekki er lengra í kosningar en svo að næsta ár er rétti tíminn til að leggja línur fyrir þær umbreytingar, sem bíða eftir stjórnarmynstri morgundagsins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. desember 2022