Óásættanlegt fyrir alla

Eftir að Króatía náði lang­þráðu mark­miði sínu um ára­mótin og skipti út gjald­miðli sínum fyrir evru eru þau orðin 20 Evrópu­löndin sem nýta sér þennan næst­stærsta gjald­miðil heims til hags­bóta fyrir ríkis­sjóð við­komandi landa, fyrir­tæki og heimili. Þá eru ó­talin ríki utan Evrópu­sam­bandsins sem nota evru, ýmist með samningi við ESB eða ein­hliða.

Á evru­svæðinu búa um 344 milljón borgarar. Frá því að Evrópu­sam­bandið tók upp sam­eigin­legan gjald­miðil hefur evrunni marg­oft verið spáð hrak­förum og jafn­vel and­láti. Ekki kemur á ó­vart að spá­mennirnir hafa oftar en ekki verið úr röðum and­stæðinga Evrópu­sam­bandsins og spá­dómarnir þá ekki síst verið til heima­brúks.

Raun­veru­leikinn er sá að not­endur evrunnar eru á­nægðir. Það sýna kannanir svo ekki verður um villst. Hug­myndin um sam­eigin­legan gjald­miðil sem flestra Evrópu­landa var vissu­lega djörf en á þeim ríf­lega 20 árum sem liðin eru hafa kostirnir verið um­tals­vert meiri og af­drifa­ríkari en gallarnir. Og hefur þó gengið á ýmsu þessi ár þar sem full­komið hrun á fjár­mála­mörkuðum og stríð innan Evrópu ber auð­vitað hæst.

Af hverju fær al­menningur hér á Ís­landi ekki að njóta þeirra kosta sem um 344 milljónir íbúa í ná­granna­löndum okkar sækjast eftir? Það þarf ó­hemju stóran skammt af sjálfs­blekkingu til að segjast tala fyrir hags­munum heimila og fyrir­tækja en hunsa um leið þann ó­við­unandi við­bótar­vaxta­kostnað sem ís­lenska krónan leiðir af sér um hver einustu mánaða­mót. Svo vinnur það auð­vitað beint gegn hags­munum al­mennings þegar ríkis­sjóður þarf að greiða marga tugi milljarða króna á ári í þennan ó­þarfa við­bótar­vaxta­kostnað af skuldum sínum. Þetta dregur svo um munar úr getu stjórn­valda til að fjár­festa í og reka nauð­syn­lega inn­viði á borð við sam­göngur og heil­brigðis­þjónustu.

Við erum föst í að­stæðum þar sem vaxta­kjörin sem standa okkur til boða jafnast á við van­skila­vexti á evru­svæðinu. Heildar­við­bótar­kostnaður er á milli 200 og 300 milljarðar króna. Þetta er bara ekki á­sættan­legt lengur. Ekki fyrir heimili. Ekki fyrir fyrir­tæki. Ekki fyrir ríkis­sjóð.

Grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. janúar 2023