Samspil hlutanna

Ísland býr yfir dýr­mæt­um nátt­úru­auðlind­um. Flest erum við sam­mála um að nýt­ing sam­eig­in­legra auðlinda skuli vera í þágu okk­ar allra. Sömu­leiðis erum við flest sam­mála um að þjóðin eigi að njóta rétt­láts hluta af þeim arði sem skap­ast af nýt­ingu auðlinda. Þá er ekki síður sam­mæli um að rétt­látt sé að þau svæði þar sem auðlind­ir eru nýtt­ar, njóti þess með ein­um eða öðrum hætti. Hef­ur þetta verið raun­in? Höf­um við hugs­an­lega skapað tvö kerfi – eitt fyr­ir suma og annað fyr­ir aðra?

Deilt hef­ur verið um rétt­láta skipt­ingu arðs í sjáv­ar­út­vegi í ára­tugi. Gott skref var stigið með upp­töku veiðigjalda. Mik­il­vægt er að und­ir­strika að mark­miðið með veiðigjald­inu er skýrt: „Veiðigjöld eru lögð á í þeim til­gangi að mæta kostnaði rík­is­ins við rann­sókn­ir, stjórn, eft­ir­lit og um­sjón með fisk­veiðum og fisk­vinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlut­deild í þeim arði sem nýt­ing sjáv­ar­auðlinda skap­ar.“

Sam­hliða þess­um deil­um um auðlinda­nýt­ingu hef­ur starf­semi virkj­ana – vatns­afls, jarðvarma og nú í aukn­um mæli vindorku – skapað mikla umræðu. Fast­eigna­skatt­ur, sem er burðarás í rekstri margra sveit­ar­fé­laga, hef­ur ein­fald­lega ekki náð til allra orku­mann­virkja, vegna lög­festr­ar und­anþágu frá fast­eigna­mati. Á þetta hafa orku­sveita­fé­lög bent um langt skeið – án aðgerða af hálfu stjórn­valda.

Í vik­unni birt­ust í sam­ráðsgátt áform innviðaráðherra um að leggja fram frum­varp þar sem orku­mann­virki verði met­in til fast­eigna­mats líkt og önn­ur hús og mann­virki, og fast­eigna­skatt­ur reiknaður í sam­ræmi við það.

Þetta eru góð tíðindi. Það er rétt­látt og sann­gjarnt að hluti auðlinda­arðs renni til nærsam­fé­lags­ins, svo fjár­fest­ing­ar í héraði ýti und­ir enn meiri verðmæta­sköp­un, sam­fé­lag­inu öllu til góðs.

Við get­um lært mikið af reynslu okk­ar úr sjáv­ar­út­vegi. Vissu­lega fær rík­iskass­inn ríf­leg­ar arðgreiðslur frá Lands­virkj­un. En sveit­ar­fé­lög­in eru þar að nokkru skil­in eft­ir. Nú er boðað að hækkuð veiðigjöld eigi að leiða til auk­inn­ar innviðafjár­fest­ing­ar. Við það verður staðið.

Það er sam­fé­lags­leg skylda að greiða fyr­ir aðgang að auðlind­um. Þegar nýt­ing þeirra krefst þess að byggð séu pláss­frek mann­virki inn­an sveit­ar­fé­lag­anna er eðli­legt að nærsam­fé­lagið fái tekj­ur í sam­ræmi við um­svif­in.

Hvort sem við horf­um til fiski­miðanna eða fall­vatn­anna – þá eig­um við ekki að láta sér­stak­ar und­anþágur grafa und­an þeirri hug­mynd að auðlind­ir Íslands séu í sam­eign þjóðar­inn­ar. Það er kom­inn tími til að reglu­verkið end­ur­spegli þá sann­fær­ingu. Sann­girni og gagn­sæi eru grunnstoðir rétt­láts lýðræðis­sam­fé­lags. Og svo er okk­ur öll­um í hag að vera hér með sterka innviði sem virka og stuðla að auk­inni verðmæta­sköp­un. Allt spil­ar þetta sam­an.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2025