Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.

 

Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem kjósa að taka þátt í þessu samstarfi. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og  efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.

 

Viðreisn vill að Ísland nýti EES samninginn til fulls. Schengen samstarfið er órjúfanlegur þáttur í þeirri vinnu. Efla þarf stuðning og net viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar til að fylgja eftir vexti útflutningstekna á víðu sviði útflutningsgreina. Viðreisn vill skoða hvort hægt sé að gera samninga um niðurfellingar tolla á fullunnum sjávarafurðum. Slíkur samningur myndi skapa aukinn grundvöll fyrir ný tækifæri og nýsköpun.

 

Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast varnir gegn hryðjuverkum, innra öryggi og landamæraeftirlit, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Að því er varðar öryggi landsins þarf ekki síst að gæta að netöryggi enda hefur komið í ljós að flest ríki hafa staðið berskjölduð gagnvart netárásum. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi lýðræðisríkja í baráttunni gegn netárásum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum.

 

Ísland á að efla þátttöku sína í norrænu samstarfi og nýta samstöðu þjóða til að efla rödd okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst með hliðsjón af markmiði flokksins um að ganga í Evrópusambandið. Sameinuð rödd Norðurlanda á þeim vettvangi yrði öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi. Viðreisn vill skoða hvort vilji sé fyrir að veita Skotlandi og Eystrasaltsríkjunum aðild að norrænu samstarfi í ljósi sameiginlegrar menningar, sögu og hagsmuna.

Lestu stefnu Viðreisnar í utanríkismálum hér

 

Loftslagsáherslur í forgrunni allrar ákvarðanatöku

Viðreisn vill að Ísland helmingi heildarlosun ríkisins (með landnotkun) á áratugs fresti og verði þannig við ákalli vísindasamfélagsins um að halda hlýnun innan 1,5C°. Við viljum sýna gott fordæmi til forystu og setja markmið sem endurspegla sanngjarna hlutdeild Íslendinga af samdrætti gróðurhúsalofttegunda. Sett verði sjálfstæð loftslagsmarkmið á Íslandi fyrir losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands, losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir  og losun sem fellur undir landnotkun.

  • Losun á beinni ábyrgð Íslands: -60% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: -43% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun vegna landnotkunar: -50% árið 2030 m.v. 2020.
  • Stefnt verði að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

 

Leggja þarf áherslu á alþjóðasamstarf um náttúruvernd t.d. með samningum á borð við Samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika, norrænt samstarf og evrópsk samstarfsverkefni. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á vernd lífríkis og líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum. Efla þarf möguleika ungs fólks á að taka þátt í stefnumótun og ákvörðunum tengdum náttúruvernd og samþættingu verndar og sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Lestu stefnu Viðreisnar í umhverfismálum hér

 

Neytendur í öndvegi

Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Auka má vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tolla og með aðild að Evrópusambandinu. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar markaða og upplýsingum til neytenda. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, þar með talið áfengismarkaði, eða að vörudreifingu. Bændur geti selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera. Auka skal gegnsæi í fasteignaviðskiptum með ástandsskoðun fasteigna og seljendatryggingu.

Lestu stefnu Viðreisnar í innanríkismálum hér

 

Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla  útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

 

Aðild að ESB og upptaka evru er því eitt mikilvægasta og stærsta verkefni á sviði efnahags- sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, sem myndi auka sjálfstæði, fullveldi, bæta kaupmátt og lífskjör almennings umtalsvert og varanlega í öllum byggðum landsins.

 

Viðreisn leggur til að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Slíkur tvíhliða samningur við Evrópusambandið yrði grunnur að fyrirkomulagi sem yrði hliðstætt gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana, sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

Lestu stefnu Viðreisnar í efnahagsmálum hér

 

Alþjóðleg samvinna

Þjóðir heims verða að vinna saman að því að leysa mörg viðfangsefni er varða alla jarðarbúa. Ísland á að vera virkt í alþjóðasamfélaginu og stuðla að friðsamlegri samvinnu og auknum viðskiptum milli landa. Vestræn samvinna hefur aukið hagsæld þjóðarinnar og er forsenda sterkrar samkeppnishæfni Íslands. Evrópusambandið er réttur vettvangur fyrir frjálslynt Ísland.

  • Samvinna við önnur ríki á Norðurlöndum, samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildin að NATO og þátttaka Íslands í Sameinuðu þjóðunum hefur reynst farsæl fyrir Ísland.
  • Full aðild að Evrópusambandinu stuðlar að aukinni hagsæld á Íslandi.
  • Samvinna þjóða tryggir og ver mannréttindi, stuðlar að friði, er nauðsynleg til að taka á umhverfismálum, bætir vernd neytenda og tryggir betur réttindi launafólks.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér