Kerfi fyrir fólk – ekki öfugt

Öflugt og sveigjanlegt almannatryggingakerfi er forsenda lífsgæða og velferðar.

 

Viðreisn leggur áherslu á að fólk eigi gott líf og þau kerfi sem eiga að halda utan um það verði einfaldari og sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og skerðingum hætt.

 

Tryggjum öryrkjum mannsæmandi lífskjör. Sköpum samfélag sem byggir á þátttöku allra og virðum frelsi fólks til að stjórna eigin lífi. Styðjum fólk með skerta starfsgetu til starfa með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu.

 

Virðum réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður  að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum. Hið opinbera á að vera leiðandi í sköpun hlutastarfa fyrir fatlað fólk. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Viðreisn leggur áherslu á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér

 

Tryggjum jafnrétti fatlaðs fólks

Við leggjum áherslu á að fylgja samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eftir með skýrum aðgerðum. Tryggja þarf fötluðu fólki sambærileg lífskjör og öðrum. Samfélagið á að vera þannig úr garði gert að fólk með fatlanir geti lifað eðlilegu lífi á eigin forsendum. Tryggja þarf réttindi fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins og sjá til þess að margþættum þörfum sé mætt. Þannig er jafnræðis gætt og þátttaka allra tryggð. Vinna skal að auknum atvinnutækifærum fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu.

 

Jafnrétti allra

Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja jafnrétti í raun á öllum sviðum samfélagsins. Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kyni, aldri, búsetu, líkamlegu atgervi, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Samfélagið á að styðja jafnt við alla foreldra, óháð stöðu, og áhersla sé á að foreldrar og börn geti notið samvista í sanngjörnu kerfi.

 

Kynbundið ofbeldi er ólíðandi

Kynbundið ofbeldi skal uppræta með opinni umræðu, ásamt forvörnum og fræðslu. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum og þjónusta þarf að vera til staðar fyrir þolendur um land allt. Brýnt er að tryggja þolendum ofbeldis nauðsynlegan stuðning og þjónustu. Mikilvægt er að styrkja réttarstöðu brotaþola og efla traust þeirra á kerfinu, veita þeim aðild í sakamálum og skerpa hlutverk réttargæslumanna. Auka þarf aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi. Þá þarf að veita þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning.

 

Tryggja þarf að löggjöf sé nútímaleg og geti tekið á nýjum tegundum afbrota. Fjármagna þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að sinna þessu verkefni. Lög og réttarvörslukerfi eru ekki nægjanlega vel í stakk búin til þess að taka á málum á borð við kynferðisofbeldi. Því þarf að skoða og leggja fram fleiri leiðir í úrvinnslu þessara mála. Kynbundið ofbeldi er kerfisbundið ofbeldi. Kerfisbundið ofbeldi gegn hinum ýmsu hópum samfélagsins er staðreynd. Hafa þarf minnihlutahópa og fólk af erlendum uppruna sérstaklega í huga þegar lagðar eru fram úrbætur á kerfinu.

Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér

 

Menntun fyrir öll – Nám alla ævi

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.

 

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.

 

Aukið val og margþættir náms- og kennsluhættir gerir nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái sín notið og vaxið. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og fjölga námsframboði á efri skólastigum.

Öflugt menningar- íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag

Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Viðreisn vill stuðla að uppbyggingu á félags- og tómstundastarfi um land allt. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar.

 

Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, uppruna eða ólíkrar getu. Tryggja skal sérsamböndum markvissan stuðning og betri aðstöðu til að hlúa að afreksfólki og þjálfa það. Tryggt verði að fjármagn úr Afrekssjóði renni í meira mæli til yngri landsliða og afreksfólks óháð kyni.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

Velferð

Velferð allra íbúa er grunnur að góðu samfélagi. Við styðjum sjálfstæði og sjálfsvirðingu einstaklinga og styðjum þá til virkni. Gera þarf fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er. Í samstarfi við ríkið þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa. Við leggjum áherslu á forvarnir og barnvæn sveitarfélög. Fræðslu- og velferðaryfirvöld eiga að starfa saman með þarfir barna að leiðarljósi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum hér

 

Við fögnum fjölbreytileikanum og gætum þess að enginn gjaldi fyrir að tilheyra jaðarhópi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér