Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja jafnrétti í raun á öllum sviðum samfélagsins. Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kyni, aldri, búsetu, líkamlegu atgervi, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Samfélagið á að styðja jafnt við alla foreldra, óháð stöðu, og áhersla sé á að foreldrar og börn geti notið samvista í sanngjörnu kerfi.

 

Kynbundið ofbeldi er ólíðandi

Kynbundið ofbeldi skal uppræta með opinni umræðu, ásamt forvörnum og fræðslu. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum og þjónusta þarf að vera til staðar fyrir þolendur um land allt. Brýnt er að tryggja þolendum ofbeldis nauðsynlegan stuðning og þjónustu. Mikilvægt er að styrkja réttarstöðu brotaþola og efla traust þeirra á kerfinu, veita þeim aðild í sakamálum og skerpa hlutverk réttargæslumanna. Auka þarf aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi. Þá þarf að veita þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning.

 

Tryggja þarf að löggjöf sé nútímaleg og geti tekið á nýjum tegundum afbrota. Fjármagna þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að sinna þessu verkefni. Lög og réttarvörslukerfi eru ekki nægjanlega vel í stakk búin til þess að taka á málum á borð við kynferðisofbeldi. Því þarf að skoða og leggja fram fleiri leiðir í úrvinnslu þessara mála. Kynbundið ofbeldi er kerfisbundið ofbeldi. Kerfisbundið ofbeldi gegn hinum ýmsu hópum samfélagsins er staðreynd. Hafa þarf minnihlutahópa og fólk af erlendum uppruna sérstaklega í huga þegar lagðar eru fram úrbætur á kerfinu.

 

Jafnrétti á vinnumarkaði

Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Kynbundinn launa- og stöðumunur er óviðunandi. Hann verður að uppræta með öllum ráðum og því er mikilvægt að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd á öllum sviðum. Það þarf sérstakt þjóðarátak, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, um lagfæringu á kjörum kvennastétta svo þau verði sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Kynbundnu námsvali þarf að útrýma með átaki allra aðila. Ríki og stofnanir skulu beita kynjaðri fjárlagagerð og hafa jafnréttislög til viðmiðunar við ráðningu í störf, hér falla dómstólar einnig undir. Jafnréttismál hafa áhrif á búsetuval. Jafnréttismál eru byggðamál.

 

Tryggjum lagaleg réttindi hinsegin fólks

Baráttunni fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks er hvergi nær lokið. Ísland er eftirbátur samkvæmt alþjóðlegum mælingum ILGA-Europe um réttindastöðu hinsegin fólks í Evrópu, þar sem enn vantar nokkuð upp á að lög og reglur tryggi hinsegin fólki fullnægjandi réttindi. Útvíkka þarf jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði þannig að hún nái einnig til hinsegin fólks. Viðreisn telur brýnt að lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð með heildstæðri og víðtækri löggjöf þar sem mannréttindi og sjálfræði einstaklingsins yfir eigin líkama eru höfð að leiðarljósi.

 

Höfnum allri mismunun og byggjum upp réttlátt fjölmenningarsamfélag

Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Hér þarf að rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að hér á landi þegar að námi lýkur. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna er því miður raunin á íslenskum vinnumarkaði. Viðreisn telur þessa mismunun ólíðandi og brýnt að ráðast til viðeigandi aðgerða gegn allri mismunun á grundvelli uppruna. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á. Viðreisn leggur áherslu á mannúðlega stefnu í málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

 

Tryggjum jafnrétti fatlaðs fólks

Við leggjum áherslu á að fylgja samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eftir með skýrum aðgerðum. Tryggja þarf fötluðu fólki sambærileg lífskjör og öðrum. Samfélagið á að vera þannig úr garði gert að fólk með fatlanir geti lifað eðlilegu lífi á eigin forsendum. Tryggja þarf réttindi fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins og sjá til þess að margþættum þörfum sé mætt. Þannig er jafnræðis gætt og þátttaka allra tryggð. Vinna skal að auknum atvinnutækifærum fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu.

 

Barnvænt og sveigjanlegt samfélag

Fæðingarorlof verði skilgreindur réttur barns til samvistar við foreldra/forsjáraðila, óháð fjölskyldugerð, til fimm ára aldurs. Ef foreldrar eru tveir þá skiptist réttur jafnt þeirra á milli. Barn með eitt foreldri/einn forsjáraðila skal njóta fullra réttinda.

 

Greiðslur úr orlofssjóði foreldra skulu miðast við 80% tekna í allt að 365 daga. Hámark orlofsgreiðslna þarf að hækka verulega. Tryggja að allir foreldrar hafi rétt á greiddu sumarleyfi eftir fæðingarorlof.

 

Hagsmuna barna er best gætt með því að hækka til muna rétt námsmanna, fólks í minna en 25% starfi og fólks sem er nýkomið út á vinnumarkað til fæðingarstyrks. Fjárhæð þess styrks skal byggð á viðeigandi neysluviðmiðum hins opinbera.

Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér

 

Innleiðum femíníska utanríkisstefnu

Viðreisn vill að Ísland innleiði formlega feminíska utanríkisstefnu að fordæmi Svíþjóðar, Kanada og annarra ríkja og jafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum störfum utanríkisþjónustunnar. Þar sem alþjóðlegt bakslag hefur orðið í jafnréttismálum á síðustu árum er mikil þörf á að þeim sé haldið vel á lofti í alþjóðlegu samhengi. Ísland hefur hingað til verið öflugur málsvari jafnréttis kynja á alþjóðavettvangi og horft er til Íslands í jafnréttismálum. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og sé ávallt á varðbergi fyrir þeim nýju áskorunum sem upp koma.  Innleiðing femínískrar utanríkisstefnu myndi styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sem leiðandi afl í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu og hafa góð áhrif á störf utanríkisþjónustunnar á þann hátt að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum, stórum og smáum. Einnig verði áfram lögð sérstök áhersla á valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi, en það hefur sýnt sig að valdefling kvenna er ein árangursríkasta aðferð þróunarsamvinnu.

              Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Menntun fyrir öll – Nám alla ævi

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.

 

Framúrskarandi starfsumhverfi skóla leiðir til öflugs faglegs starfs

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.

 

Öflugt menningar- íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag

Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, uppruna eða ólíkrar getu. Tryggja skal sérsamböndum markvissan stuðning og betri aðstöðu til að hlúa að afreksfólki og þjálfa það. Tryggt verði að fjármagn úr Afrekssjóði renni í meira mæli til yngri landsliða og afreksfólks óháð kyni.

Lestu mennta, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Kynlífsverkafólk og þolendur mansals

Refsistefna í málefnum kynlífsverkafólks og þolenda vændis, sem er skaðleg þeirra hagsmunum, er úrelt. Nauðsynlegt er að stuðla að skaðaminnkandi nálgun í þeim málaflokki og efla félagsleg úrræði þeim til stuðnings. Þolendum mansals verði tryggð fullnægjandi réttarvernd og stuðningur.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Jafnrétti er einn af hornsteinum Viðreisnar

Viðreisn er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur. Hann byggir stefnu sína og störf á jafnrétti og hugmyndafræði frjálslyndis. Grunnstefna Viðreisnar byggist á fjórum hornsteinum: Frjálslyndi og jafnrétti, réttlátu samfélagi, efnahagslegu jafnvægi og alþjóðlegri samvinnu.

 

Viðreisn vill skapa réttlátt samfélag þar sem almannahagsmunir ganga framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis.

 

Fjálslyndi og jafnrétti

Frjálslyndi, frelsi og jafnrétti er leiðarstef Viðreisnar á öllum sviðum. Skapa þarf öllum landsmönnum jöfn tækifæri og styðja þá sem ekki geta nýtt þau.

  • Viðreisn vill frjálst og opið þjóðfélag þar sem jafnvægi ríkir á milli frelsis einstaklinga, jafnréttis og samkenndar.
  • Við höfnum hvers konar kynbundinni mismunun.
  • Við fögnum fjölbreytileikanum og gætum þess að enginn gjaldi fyrir að tilheyra jaðarhópi.
  • Viðreisn hafnar einokun og fákeppni sem takmarkar frelsi og stríðir gegn jafnrétti.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér