Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.
Við uppbyggingu öflugs menntakerfis á að vinna eftir fjórða heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem segir: „Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri.”
Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.
Aukið val og margþættir náms- og kennsluhættir gerir nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái sín notið og vaxið. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og fjölga námsframboði á efri skólastigum.
Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni.
Viðreisn leggur áherslu á að efla raunfærnimat á framhalds- og háskólastigi, á móti viðmiðum atvinnulífsins. Skilgreina þarf námslok innan framhaldsfræðslunnar líkt og á öðrum skólastigum og efla enn frekar framhaldsfræðslu til að koma til móts við einstaklinga sem hafa ekki lokið formlegu námi.
Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánkerfi námslána. Stefna ætti að blönduðu styrkja- og lánakerfi, þar sem námsmenn hafi þó kost á að nýta aðeins styrkinn, án þess að taka lán. Viðreisn vill afnema frítekjumark námslána MSNM ásamt því að grunnframfærsla sé í samræmi við neysluviðmið Félagsmálaráðuneytisins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, skulu eiga kost á námslánum.
Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Leggja skal áherslu á starfsþróun, markvissa faglega endurgjöf, tæknivætt starfsumhverfi og samþætta stoðþjónustu. Sérstaklega skal veita kennurum tækifæri til að þróa getu sína til að miðla þekkingu á stafrænni tækni. Leggja skal áherslu á þverfaglegt samstarf innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum í fjölmenningarlegu skólaumhverfi.
Viðreisn leggur áherslu á að samin verði heildstæð aðgerðaráætlun í málefnum fólks af erlendum uppruna sem hefur annað móðurmál en íslensku. Skapa þarf aðstæður til að taka á móti fólki af erlendum uppruna með því að rýmka rétt þeirra til að setjast hér að, t.d. hafi það stundað hér nám. Tryggja þarf að þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn fái viðeigandi tækifæri og stuðning. Þannig öðlast þau jafnari forsendur til náms og á vinnumarkaði. Gera þarf bragarbót á því að meta menntun erlendis frá og tryggja aðgengi fólks af erlendum uppruna að raunfærnimati svo að þeirra þekking og hæfni nýtist þeim og samfélaginu sem best.
Öll börn og ungmenni sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu fá stuðning og eftirfylgni til að þau hafi jafnar forsendur til náms í íslenskum skólum.
Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér
Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Kynbundinn launa- og stöðumunur er óviðunandi. Hann verður að uppræta með öllum ráðum og því er mikilvægt að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd á öllum sviðum. Það þarf sérstakt þjóðarátak, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, um lagfæringu á kjörum kvennastétta svo þau verði sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Kynbundnu námsvali þarf að útrýma með átaki allra aðila.
Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Hér þarf að rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að hér á landi þegar að námi lýkur. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna er því miður raunin á íslenskum vinnumarkaði. Viðreisn telur þessa mismunun ólíðandi og brýnt að ráðast til viðeigandi aðgerða gegn allri mismunun á grundvelli uppruna. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á.
Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér
Á Íslandi er fjölbreytt mannlíf og vill Viðreisn standa vörð um fjölbreytileikann. Tryggjum réttindi til þjónustu, náms og vinnu þegar fólk kemur hingað til lands og leyfum þeim að búa sér betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu.
Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér
Heilsuefling þarf að vera hluti af samfélaginu öllu til að koma í veg fyrir veikindi, bæði andleg og líkamleg. Fræðsla um mataræði, hreyfingu, andlega vellíðan og snemmtæk íhlutun eiga að vera hluti af námi barna. Tryggja þarf aðgengi að fræðslu og heilsueflandi úrræðum handa öllum út æviskeiðið.
Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér
Við styðjum fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Við viljum að börnum sé tryggð dagvistun frá 12 mánaða aldri. Nám- og kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir og gera skal skapandi- og starfstengdu námi hærra undir höfði. Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
Stutt er við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna.
Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnarmálum hér
Allir skulu hafa rétt til heilbrigðisþjónustu, menntunar og félagslegrar þjónustu.
Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér