Að hlaupa hraðar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra átti góða lykilsetningu þegar hann kynnti fjárlög og fjármálaáætlun í síðustu viku. Hann sagði einfaldlega að við þyrftum að hlaupa hraðar.

Með þessu var hann að segja að hagvöxtur þyrfti að verða meiri en nú stefnir í að óbreyttu. Ef við eigum á annað borð að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs og verja lífskjör. Þessari nálgun er ég sammála.

Getan er ekki nóg ef viljann skortir

Þegar við komum svo saman á Alþingi að kvöldi sama dags til þess að ræða stefnuræðu forsætisráðherra kom í ljós að ríkisstjórnin er ekki með nein framtíðarplön sem gera okkur kleift að hlaupa hraðar. Það voru mikil vonbrigði.

Sjálf held ég að stjórnarflokkarnir, hver um sig, geti hlaupið hraðar en sameiginleg plön þeirra gefa til kynna. En þetta snýst ekki bara um getuna. Hindrunum verður ekki rutt burt ef viljann skortir.

Það er nákvæmlega hér, sem hnífurinn stendur í kúnni. Það eru hindranir á veginum. En uppistaðan og innihaldið í sáttmála stjórnarflokkanna er að hreyfa ekki við þessum hindrunum. Til þess skortir viljann. Þess vegna er hún kölluð kyrrstöðustjórn. Og kyrrstöðustjórnir hlaupa ekki hraðar, jafnvel þótt þörfin sé brýn og knýjandi.

Ríkisútgjöldin sjálf stækka ekki þjóðarkökuna

Viðreisn hefur stutt ríkisstjórnina í bráðabirgðaráðstöfunum. Að vísu finnst okkur að hún hafi ekki staðið við eigin fyrirheit um að gera meira en minna. En það er ekki aðalatriðið hér.

Kjarni málsins er að þjóðarkakan til framtíðar stækkar ekki sjálfkrafa með aukningu ríkisútgjalda. Við hlaupum ekki hraðar við það eitt. Því ræður viljinn til að ryðja hindrunum úr vegi svo við getum hlaupið hraðar.

Sagan segir okkur að á síðustu öld áttum við þrjá áratugi þar sem við hlupum hraðar af því að hindranir voru ekki í vegi eða þeim var rutt úr vegi. Á grunni pólitískra ákvarðana.

Þegar við hlupum hraðar

Á fyrsta áratug síðustu aldar varð atvinnubylting í landinu með nýsköpun sjávarútvegsins. Efnahagslegu forsendurnar fyrir þessu stökki inn í nútímann voru tvær. Annars vegar hindrunarlaus milliríkjaviðskipti með fisk, landbúnaðarafurðir og iðnaðarvörur. Hins vegar stöðug mynt með þátttöku í Norræna myntbandalaginu.

Þessi gengisfesta fékk erlenda fjárfesta til þess að setja hér á fót banka. Hann gat síðan lánað erlent fjármagn til nýsköpunar sjávarútvegsins.

Á sjöunda áratugnum ruddi Viðreisnarstjórnin tveimur hindrunum úr vegi svo þjóðin gæti hlaupið hraðar. Annars vegar hvarf hún frá höftum í vöruviðskiptum. Hins vegar hætti hún að biðja um sérlausnir frá Bretton Woodssamstarfinu um stöðuga gjaldmiðla. Það leiddi til greiðari aðgangs að erlendu fjármagni til nýrrar iðnbyltingar.

Á tíunda áratugnum var líka ákveðið að hlaupa hraðar og henda út hindrunum. Þá féllust stjórnvöld á þá lykilforsendu þjóðarsáttarsamninga að tryggja stöðugt gengi. Til þess að sú tilraun gengi upp þurfti að opna nýjar leiðir.

Annars vegar var það gert með því að gefa framsal aflahlutdeildar frjálst. Það leiddi til gífurlegrar hagræðingar og framleiðniaukningar í sjávarútvegi. Hins vegar var það gert með inngöngu í innri markað Evrópusambandsins. Inngangan eyddi margvíslegum hindrunum og stórjók viðskipti.

Hindranir sem nú þarf að ryðja úr vegi

Þær hindranir, sem nú þarf að ryðja úr vegi til að við getum hlaupið hraðar, kalla á kerfisbreytingar af svipuðum toga og áður.

Í fyrsta lagi verðum við að gerast aðilar að evrunni eða tengjast henni. Það er knýjandi mál. Gjaldgeng stöðug mynt er forsenda fyrir því að nýsköpun í þekkingariðnaði takist. Fólk innan nýsköpunarfyrirtækja hefur ítrekað bent á gjaldmiðinn sem helstu hindrunina til vaxtar. Gleymum heldur ekki að Marel og Össur tóku flugið á gengisfestutímanum á tíunda áratugnum.

Ef engar breytingar verða á gjaldmiðlinum munum við halda áfram að stofna sprotafyrirtæki, sem síðar lenda í útlöndum. Fyrir aukinn hagvöxt hér heima eru það vondar fréttir en einnig fyrir atvinnusköpun ungs fólks. Auðlindanýting ein og sér mun ekki standa fyrir þeirri fjölbreytni og verðmætasköpun í atvinnulífinu sem þarf til að gera ríkissjóð sjálfbæran til lengri tíma litið.

Í öðru lagi þarf að auka framleiðni í sjávarútvegi með því að láta markaðinn ákveða verð fyrir tímabundinn veiðirétt. Samhliða þarf að mæta veikari sjávarbyggðum með því að styrkja umgjörð smábátaveiða og nota hluta af auðlindagjaldi til nýsköpunar á landsbyggðinni.

Í þriðja lagi þurfum við að stíga lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu. Þótt það sé ekki augnabliksmál er það skref þó mun minna en það sem við tókum á tíunda áratugnum, þegar við ákváðum að verða aðilar að kjarnastarfsemi sambandsins. Slíkt skref eykur stöðugleika, bætir lífskjör og getur hleypt nýju lífi í viðskipti, meðal annars með íslensk matvæli.

Kyrrstöðustjórnin þarf að fara fyrst

Kjarni málsins er sá að við verðum að hlaupa hraðar. Það hefur tekist þegar kerfisbreytingar
hafa verið gerðar til að ryðja hindrunum úr vegi.

Fyrsta hindrunin, sem ýta þarf til hliðar, er kyrrstöðuríkisstjórnin. Að því búnu er hægt að bretta upp ermar og leggja af stað.

Höfundur er formaður Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. október 2020