25 sep Viðreisn gefur framtíð þinni tækifæri
Þegar við göngum til kosninga í dag blasa skýrir valkostir við. Valið stendur á milli stjórnmálaflokka sem hafa framsýni og þor til að breyta ónýtum og óþörfum kerfum og þeirra sem vilja verja það sem alltaf hefur verið. Valið er einfalt því kyrrstaða leiðir ekki af sér ný tækifæri heldur stöðnun.
Bætum hag heimilanna
Efnahagsmál snúast um daglegt líf okkar allra. Og við sjáum aftur mynd sem við þekkjum. Íslandsbanki spáir því að stýrivextir hækki um 2 prósentustig á næstu tveim árum. Það hækkar mánaðarlegar greiðslur af óverðtryggðu 40 m.kr. láni um 75.000 kr. Vextir eru margfalt hærri en á Norðurlöndunum. Þessi staða er hins vegar ekki lögmál heldur afleiðing af pólitískri stefnu.
Viðreisn vill tengja krónuna við evru, líkt og Danir hafa gert. Það mun færa stöðugleika sem hér vantar og það mun lækka kostnað fólks við að eignast heimili og að reka það. Fyrir fyrirtæki er grundvallaratriði að geta gert áætlanir og að vissa sé um helstu útgjaldaliði. Svo er ekki í dag. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði til að daglegt líf fólks og fyrirtækja í landinu sé gott, stöðugt og samkeppnishæft. Til þess þarf stöðugan gjaldmiðil.
Stöðugleiki fyrir öll, ekki bara sum
Helsti boðskapur ríkisstjórnarflokkanna nú, er um mikilvægi stöðugleika. Efnahagstjórn núverandi stjórnar skilaði þjóðinni hins vegar ósjálfbærum ríkissjóði áður en heimsfaraldur skall á. Ríkissjóður var vitlausu megin við núllið, þegar allar aðstæður voru okkur í hag. Þess vegna er tal um stöðugleika stjórnarinnar heldur broslegt.
Á hverju ári verða ríkissjóður og almenningur í landinu af milljörðum vegna þess að útgerðin greiðir ekki sanngjarnt markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum. Kvótakerfið sem slíkt hefur sannað gildi sitt til að tryggja sjálfbæra auðlind en út af stendur að innheimta eðlilega gjaldtöku fyrir afnot af fiskimiðunum. Viðreisn vill að hluti kvótans fari á markað á ári hverju og markaðurinn svari því hvert verðmætið er. Með þessu skapast sátt í einu helsta þrætumáli þjóðarinnar undanfarna áratugi og atvinnugreinin fær stöðugleika með langtímasamningum um nýtingu auðlinda.
Þorum að horfa til framtíðar
Viðreisn þorir að skora kyrrstöðuna á hólm í þágu næstu kynslóðar. Við viljum færa æsku landsins ný tækifæri til framtíðar og fara í aðgerðir til að skapa betri aðstæður til frambúðar. Viðreisn vill fjárfesta markvisst í menntun og nýsköpun. Við viljum skapa fyrirtækjum skilyrði til að sækja fram. Við viljum niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Við viljum sanngirni í sjávarútvegi. Við viljum gefa heimilum og fyrirtækjum svigrúm og segjum nei við skattahækkunum á næsta kjörtímabili.
Við leggjum fram aðgerðir um græna hvata í loftslags- og umhverfismálum. Til að skilja við heiminn betri en við tókum við honum. Markmið Viðreisnar er að Ísland verði leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum á heimsvísu, rétt eins og í jafnréttismálum. Í því felst mikilvæg sýn og markmið í þágu næstu kynslóðar.
Verkefnið í dag er einfalt. Að hefjast strax handa við að skapa samfélag sem býður fólkinu í landinu góð lífskjör og lífsgæði, til frambúðar. Að við hættum að beita skyndilausnum og þorum að horfa til framtíðar. Þess vegna á að kjósa á Viðreisn.
Greinin birtist fyrst á Morgunblaðinu 23. september 2021