Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi. Nýsköpun í þágu sjálfbærni, fæðuöryggis og umhverfisverndar mun stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til vaxtamöguleika til atvinnusköpunar. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri. Stuðla ætti að auknum sveigjanleika á vinnumarkaði með því að byggja frekar undir möguleika á fjarvinnu.
Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu og öruggt rafmagn um allt land. Það er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og fjölgunar tækifæra á Íslandi.
Uppbygging ferðaþjónustunnar að nýju verður að byggja á faglegum grunni og skýrri framtíðarsýn til að tryggja sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt land til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Á svæðum sem heyra undir hið opinbera verði innheimta gjalda samræmd. Ríkisstjórnin skal setja heildstæða ferðaþjónustustefnu til 5 ára í senn.
Viðreisn vill að litið sé til nýrra og nútímalegra lausna við að skapa ný störf og tækifæri. Uppbygging fjarvinnukjarna víða um land leikur þar lykilhlutverk. Hið opinbera á að styðja við þá um allt land og tryggja að þeir skili störfum til byggðanna en verði ekki til þess að þau glatist. Samstarf ríkis og sveitarfélaga ásamt öflugri grunnþjónusta í heimabyggð skipta þar höfuðmáli. Síðast en ekki síst þarf að huga sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi um allt land.
Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér
Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili. Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki.
Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa. Tryggja þarf að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna og styrkja almennt tekjugrunn sveitarfélaganna. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni. Fólk á að hafa raunhæft val um hvar það býr sér heimili án þess að vera mismunað eftir búsetu. Með aukinni hlutdeild sveitarfélaga í þjónustu við íbúa er valdi hins opinbera dreift enn frekar um landið og það fært nær íbúum.
Hvítbók í byggðamálum gerir góða grein fyrir hvað þarf að gera til að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Íslandi. Við styðjum að verkefnum sem þar eru sett fram sé forgangsraðað, þau fjármögnuð og framkvæmd í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.
Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Í öllum byggðum skal vera aðgengi að öflugri nettengingu. Ráðast þarf í stórátak með fjárfestingum í dreifikerfi rafmagns. Hraða þarf þrífösun rafmagns í dreifbýli sem er forsenda margvíslegrar atvinnusköpunar og notkun öflugs rafbúnaðar og orkuskipta í sveitum. Þá ber að fjárfesta vel í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.
Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér
Tryggja þarf orkuöryggi um allt land með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfis raforku og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun. Auka þarf gagnsæi og skilvirkni á raforkumarkaði til að skapa jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs og koma í veg fyrir offjárfestingu í raforkuvinnslu.
Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu heilnæmra og fjölbreyttra landbúnaðarafurða, í sátt við umhverfið. Kerfið styðji fjölbreytta og umhverfisvæna framleiðslu með áherslu á aukið frelsi, taki tillit til breyttra neysluvenja, stuðli að bættum hag bænda og neytanda og ýti undir nýliðun í röðum bænda.
Tryggja þarf fjármuni til rekstrar, verndar og landvörslu friðaðra svæða þannig að ágangur rýri ekki gildi svæðanna og að kynslóðir framtíðar fái notið heillandi fegurðar og heilnæmrar útivistar. Möguleg gjaldtaka verður að vera í góðri sátt við almenning og sveitarfélög. Jafnframt verði leitast við að styrkja byggð í nágrenni þjóðgarða og skapa atvinnu og aðstæður, í náinni samvinnu við sveitarfélög, fyrir fjölbreyttar rannsóknir. Nauðsynlegt er að koma umsjón með náttúruvernd, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum undir eina stofnun til að samþætta ákvarðanatöku, auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármagns.
Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér
Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.
Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni.
Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu.
Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Viðreisn vill stuðla að uppbyggingu á félags- og tómstundastarfi um land allt. Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar.
Öflugt menningarstarf um allt land er forsenda blómlegrar byggðar. Við eflingu menningarstarfs skal horfa til efnahagslegrar þýðingar menningarstarfsemi og skapandi greina, sem verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar.
Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér
Jafnréttismál hafa áhrif á búsetuval. Jafnréttismál eru byggðamál.
Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér
Viðreisn leggur áherslu á að nýta eigi tækni til að tengja betur sérfræðinga og fólkið í byggðum landsins og stuðla þannig að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónusta er þar lykilatriði. Efla þarf heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins og gera starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna eftirsóknarverðara. Hugsa þarf skipulag sjúkrahúsa upp á nýtt með það fyrir augum að tryggja aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu og auðvelda sérhæfingu þeirra á ólíkum sviðum.
Nauðsynlegt er að draga úr bráðavanda og biðlistum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Börn eiga ekki að bíða eftir nauðsynlegri greiningu eða þjónustu. Samþætting og einstaklingsmiðuð nálgun á milli kerfa er lykilatriði. Heilsugæslur eiga að vera öflugar um allt land og veita þá nærþjónustu sem nauðsynleg er. Leysa þarf bráðavanda sem snýr að greiningu og úrlausn mála varðandi skimun á leghálskrabbameini.
Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér
Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað.
Aðild að ESB og upptaka evru er því eitt mikilvægasta og stærsta verkefni á sviði efnahags- sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, sem myndi auka sjálfstæði, fullveldi, bæta kaupmátt og lífskjör almennings umtalsvert og varanlega í öllum byggðum landsins.
Viðreisn vill að skapaður verði grundvöllur fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs sem skapar samfélaginu ábata til lengri tíma og býr til tækifæri fyrir sem flest okkar til að lifa og starfa við sem best skilyrði í öllum landsbyggðum. Leggja skal áherslu á vöxt atvinnulífs og svæða, m.a. með uppbyggingu klasa, aðstöðu fyrir háskóla og rannsóknarstarf og samstarf við atvinnulíf, þar sem lögð er áhersla á sérstöðu og styrkleika hvers svæðis fyrir sig.