Hagstjórn og fjármálastjórn sem treystir stöðugleika og kjör almennings

Efnahagslegur stöðugleiki er forgangsmál. Megináhersla þarf að vera á stöðug ytri skilyrði og ábyrgan rekstur hins opinbera. Með stöðugleika skapast tækifæri fyrir langtíma uppbyggingu hagsældar og fjölbreytts atvinnulífs sem býður sem flestum tækifæri þar sem hæfileikar þeirra nýtast.

 

Traust hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, eru forsenda stöðugleika og hagsældar. Viðreisn vill draga úr ríkisumsvifum, lækka skuldir hins opinbera og einfalda stjórnsýslu.

 

Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu þar sem allir bera réttlátar byrðar. Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum, bæði innanlands og gegn notkun á erlendum skattaskjólum. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðalegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.

 

Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla  útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

 

Markaðir er það fyrirkomulag sem við notum við að tryggja hagkvæma framleiðslu stærsta hluta þess sem framleitt er, öllum til hagsbóta. Þung rök þurfa að vera til staðar ef víkja á frá þessari meginreglu. Viðreisn berst gegn kreddum og hagsmunagæslu sem vill draga úr hlutverki markaðslausna. Einfalda skal rekstrarumhverfi fyrirtækja og auka samkeppni og fjölbreytni eins og kostur er. Miklu hagræði má ná í opinberri þjónustu með auknum útboðum verkefna, einkarekstri og markaðslausnum, þó að opinberir aðilar kosti þjónustuna.

Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér

 

Neytendur í öndvegi

Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Auka má vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tolla og með aðild að Evrópusambandinu. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar markaða og upplýsingum til neytenda. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, þar með talið áfengismarkaði, eða að vörudreifingu. Bændur geti selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera. Auka skal gegnsæi í fasteignaviðskiptum með ástandsskoðun fasteigna og seljendatryggingu.

 

Stórátak í innviðafjárfestingum

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.

 

Einfalda þarf og straumlínulaga stjórnsýslu í málefnum innviða. Taka skal upp beina gjaldtöku af vegamannvirkjum í stað núverandi gjaldstofna og láta slíka gjaldtöku taka mið, m.a. af umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.

 

Sóknargjöld

Með breytingu á stjórnarskrá skal tryggja jöfnun atkvæðavægis og jafnræði meðal trúfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkið leggi af úthlutun sóknargjalda og hætti skráningu trúar- og lífsskoðana.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

 

Niðurfellingar tolla á fullunnum sjávarafurðum

Viðreisn vill að Ísland nýti EES samninginn til fulls. Schengen samstarfið er órjúfanlegur þáttur í þeirri vinnu. Efla þarf stuðning og net viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar til að fylgja eftir vexti útflutningstekna á víðu sviði útflutningsgreina. Viðreisn vill skoða hvort hægt sé að gera samninga um niðurfellingar tolla á fullunnum sjávarafurðum. Slíkur samningur myndi skapa aukinn grundvöll fyrir ný tækifæri og nýsköpun.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Grænir hvatar og kolefnisgjöld

Stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Öll mál eru umhverfismál.

 

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.

 

Komum á skilvirku og sjálfbæru hringrásarhagkerfi

Auðlindir eru takmarkaðar og Viðreisn telur það frumskyldu stjórnvalda að tryggja sjálfbærni við nýtingu þeirra. Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás, þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Draga þarf markvisst úr myndun úrgangs jafnframt því að líta á hann sem verðmætt hráefni fyrir nýja vöru. Bann við urðun lífræns úrgangs skapar tækifæri til nýsköpunar og grænna starfa þar sem stjórnvöld styðja framleiðsluferla sem halda efni og orku inn í hringrásarhagkerfinu t.a.m. með bættum skilakerfum og úrvinnslugjöldum.

 

Leggja þarf áherslu á að flokkaður úrgangur verði að nýjum vörum og styðja við græna nýsköpun í endurvinnslu. Samhliða því þarf efnahagslega hvata sem styðja við deilihagkerfið. Stefnt verði að því að vinna aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið með árangursvísum til þess að tryggja framgang hugmyndafræðinnar. Stefnt verði að því að meta árangurinn og styðja fjárlagagerð með alþjóðlega viðurkenndum velsældarvísum sem taka mið af öllum stólpum sjálfbærrar þróunar. Áhersla verði lögð á gagnsæa miðlun upplýsinga samhliða auknu samráði við almenning í umhverfismálum.  Stórefla þarf fræðslu um hugmyndafræði hringrásarsamfélagsins, úrgangsforvarnir og bætta framleiðsluhætti. Koma þarf á kerfi, með efnahagslegum hvötum og merkingum, sem hvetur til framleiðslu á endingargóðum vörum, þar sem viðgerðir verði að hagkvæmum og raunhæfum valmöguleika.

 

Með rekjanlegu kolefnisspori vöru geta neytendur tekið upplýstari ákvarðanir um val á vöru m.t.t. loftslagsáhrifa hennar. Þar með verði hægt að draga úr neysludrifinni losun. Mengunarbótareglan er grunnstefið, þ.e. að þeir sem menga axli ábyrgð og greiði gjald í samræmi við umfang og eðli losunar sem þeir valda. Styrkja þarf ábyrgð framleiðenda með því að setja fleiri efnisflokka þar undir, svo að tryggja megi að greitt sé fyrir endanlegan frágang úrgangs og þar sé miðað við hringrásarhugsunina, með skynsemi og hagsýni að leiðarljósi.

 

Viðreisn telur að vernd og nýting náttúruauðlinda geti og verði að fara saman og mun leggja áherslu á að tryggja það til framtíðar. Stefna Viðreisnar er að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt. Nýtingin á að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum og skerði ekki kosti komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Allar auðlindir lofts, lagar og sjávar, óháð eignarhaldi, verði nýttar á ábyrgan hátt og skili jákvæðum áhrifum til samfélagsins. Aðgangur að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar verði tímabundinn og upphæð gjalds fyrir nýtingu verði ákvörðuð af markaðnum þegar því verður við komið.

 

Náttúruvernd í öndvegi

Tryggja þarf fjármuni til rekstrar, verndar og landvörslu friðaðra svæða þannig að ágangur rýri ekki gildi svæðanna og að kynslóðir framtíðar fái notið heillandi fegurðar og heilnæmrar útivistar. Möguleg gjaldtaka verður að vera í góðri sátt við almenning og sveitarfélög. Jafnframt verði leitast við að styrkja byggð í nágrenni þjóðgarða og skapa atvinnu og aðstæður, í náinni samvinnu við sveitarfélög, fyrir fjölbreyttar rannsóknir. Nauðsynlegt er að koma umsjón með náttúruvernd, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum undir eina stofnun til að samþætta ákvarðanatöku, auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármagns.

Lestu umhverfisstefnu Viðreisnar hér

 

Allir auglýsingamiðlar greiði skatta

Almannaútvarp hefur bæði menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Rétt er að huga að samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og stuðningi hins opinbera, sérstaklega við innlenda dagskrárgerð. Veru RÚV á auglýsingamarkaði þarf að endurskoða með tilliti til stöðu einkarekinna fjölmiðla. Viðreisn telur að erlendir miðlar sem auglýsa á Íslandi, svo sem Facebook og Google, skuli greiða skatta til íslenska ríkisins, til jafns við aðra auglýsingamiðla.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Jafnrétti á vinnumarkaði

Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Kynbundinn launa- og stöðumunur er óviðunandi. Hann verður að uppræta með öllum ráðum og því er mikilvægt að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd á öllum sviðum. Það þarf sérstakt þjóðarátak, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, um lagfæringu á kjörum kvennastétta svo þau verði sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Kynbundnu námsvali þarf að útrýma með átaki allra aðila. Ríki og stofnanir skulu beita kynjaðri fjárlagagerð og hafa jafnréttislög til viðmiðunar við ráðningu í störf, hér falla dómstólar einnig undir. Jafnréttismál hafa áhrif á búsetuval. Jafnréttismál eru byggðamál.

Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér

 

Fjármagn fylgi tilfærslu verkefna

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa. Tryggja þarf að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna og styrkja almennt tekjugrunn sveitarfélaganna. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni. Fólk á að hafa raunhæft val um hvar það býr sér heimili án þess að vera mismunað eftir búsetu. Með aukinni hlutdeild sveitarfélaga í þjónustu við íbúa er valdi hins opinbera dreift enn frekar um landið og það fært nær íbúum.

 

Kostnaðargreining verði grundvöllur fjárveitinga til velferðar- og heilbrigðisþjónustu

Þjónusta við fólk verði í öndvegi skipulags heilbrigðis- og velferðarmála, ekki form rekstrarins, sem standa á öllum til boða óháð efnahag. Kostnaðargreining verði grundvöllur fjárveitinga til allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Einfalda og samþætta þarf kerfið þannig að það sé skiljanlegt og aðgengilegt fyrir alla. Öflugt og sveigjanlegt almannatryggingakerfi er forsenda lífsgæða og velferðar.

 

Auka þarf fjármagn til Landspítalans svo hann standi undir þeim gæðakröfum sem nauðsynlegar eru fyrir aðalsjúkrahús þjóðarinnar. Undanfarið ár hefur sýnt í verki það álag sem Landspítalinn er undir og mikilvægi þess að styrkja stoðir hans. Fjármagn þarf að byggja á greiningu á þörf og kostnaðarmati á verkum innan heilbrigðiskerfisins.

Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér

 

Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengd, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Opinber fjárframlög eiga að stuðla sem best að settum markmiðum.

 

Sátt um sjávarútveginn

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma. Með samningum til 20-30 ára sé pólitískri óvissu eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest. Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Það er vont fyrir útgerðina að búa við stöðuga pólitíska óvissu. Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfis er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja þannig að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Því hlutverki sinnir kvótakerfið vel. Innheimta veiðigjalda er hins vegar of flókin og ógagnsæ. Viðreisn leggur áherslu á dreifða eignaraðild í sjávarútvegi og auka gagnsæi með kröfum um skráningu á skipulögðum hlutabréfamarkaði fyrir fyrirtæki af ákveðinni stærð. Tryggja að vilji löggjafans um hámarkskvótaeign ráðandi aðila í sjávarútvegi sé virkur.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

Fagleg stjórnun

Við viljum gagnsæi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Aðskilnaður milli stjórmálanna og faglegrar stjórnsýslu þarf að vera skýr. Stjórnsýslan þarf að vera einföld og að fullu stafræn. Við sækjum innblástur í alþjóðlegar fyrirmyndir og stefnur. Sveitarfélög taki mið af heimsmarkmiðum og Barnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við setjum fram mælanleg markmið til að tryggja yfirsýn og auðvelda faglega ákvarðanatöku.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum hér

 

Ábyrgur rekstur

Rekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga verði að jafnaði hallalaus og skuldir hóflegar.

 

Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og þær ber að nýta á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Greiða skal markaðsverð fyrir aðgang að þeim.

 

Frjáls markaður og gott viðskiptasiðferði veita aðhald og stuðla að efnahagslegum framförum. Skýr löggjöf móti umgjörð um efnahagslífið með stöðugleika og þjóðhagsleg varúðarsjónarmið að leiðarljósi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér