Kanínur úr hatti Viðreisnar

Thomas Möller Alþingiskosningar 2021 Suðvesturkjördæmi 4. sæti Viðreisn

Fjármálaráðherra heldur áfram að tala um hugmyndir Viðreisnar að betra samfélagi sem „kanínur úr hatti“, nú síðast í grein í miðju Fréttablaðsins 8. september. Skoðum þessar kanínur nánar.

Fyrsta kanínan

Viðreisn vill gengisstöðugleika með því að festa gengi krónunnar við evru með sama hætti og Danir og Færeyingar hafa gert áratugum saman með góðum árangri. Þannig væri hægt að tryggja að ein evra muni kosta til dæmis um 145 kr til næstu ára en ekki á bilinu 110 til 165 eins og raunin hefur verið síðustu rúm fjögur ár.

Með því að tryggja stöðugt gengi munu vextir af húsnæðislánum, fyrirtækjalánum og lánum ríkissjóðs lækka strax. Stöðugt gengi mun leiða til lækkunar á matarverði.

Með stöðugu gengi skapast mun betri rekstrarskilyrði fyrirtækja en nýlegar kannanir sýna að stöðugt gengi er efst á óskalista Samtaka iðnaðarins og frumkvöðla í nýsköpun og sprotagreinum.

Önnur kanína Viðreisnar

Viðreisn vill skapa sátt í sjávarútvegi með því að sanngjarnt verð verði greitt fyrir aðgang að sjávarauðlindum okkar og samningar um nýtinguna séu tímabundnir. Við viljum að hluti kvótans verði settur á markað á hverju ári. Þannig verði óvissu um rekstrarskilyrði útgerðar eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni verður staðfest. Einnig skapast með þessu tækifæri til nýliðunar í greininni fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Um 77% þjóðarinnar vill gera þessa breytingu sem fjármálaráðherra kallar kanínu úr hatti!

Kanína númer þrjú

Þessi kanína Viðreisnar snýr að því að gera heilbrigðisþjónustuna betri fyrir alla landsmenn með bættu aðgengi um land allt. Viðreisn leggur áherslu á valfrelsi og þjónustumiðað heilbrigðiskerfi. Þar þjónar öflug opinber þjónusta með fjölbreyttu rekstrarformi mikilvægum tilgangi.

Fjórða kanínan hjá Viðreisn

Viðreisn vill auka tækifæri fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki í grænu hagkerfi. Endalaus tækifæri eru ónotuð sem stuðla að aukinni umhverfisvernd. Við viljum auka hvatningu til einstaklinga og fyrirtækja til orkuskipta úr jarðefnaeldsneyti í rafmagn eða vetni og skapa umhverfi fyrir hringrásarhagkerfi til að minnka sóun á verðmætum og auðlindum.

Þess má geta að þessi kanína Viðreisnar skoraði einna hæst í nýlegri könnun Ungra umhverfissinna.

Fimmta og síðasta kanínan hjá Viðreisn

Viðreisn vill jafna atkvæðisréttinn og lögðu þingmenn flokksins fram frumvarp í því skyni á Alþingi haustið 2020. Sú tillaga var felld af núverandi stjórnarflokkum af því að það hentaði þeirra sérhagsmunum. Fjármálaráðherran á örugglega bágt með að útskýra þessa kanínu fyrir kjósendum sínum í Kraganum sem hafa aðeins hálft atkvæði í komandi kosningum.

Sýnum virðingu

Einn virtasti stjórnmálamaður landsins, Bjarni Benediktsson eldri, sagði eitt sinn að mikilvægasta regla allra stjórnmálamanna væri að virða ólíkar skoðanir. Hann sagði það grunn lýðræðis að „virða skoðanir hvers annars“.

Þegar fjármálaráðherrann kallar tillögur Viðreisnar og annarra flokka „kanínur úr hatti“ lýsir það hroka og virðingarleysi af hans hálfu.

Viðreisn er með raunhæfar hugmyndir að betra mannlífi á Íslandi. Viðreisn vill skapa réttlátt samfélag, þar sem almannahagsmunir ganga alltaf framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis. Þetta eru kanínur úr hatti að mati Bjarna Benediktssonar yngri.

Höfundur er Garðbæingur, verkfræðingur, MBA og frambjóðandi í fjórða sæti Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. september 2021