72 þúsund á mánuði til meðalfjölskyldu

Viðreisn áætlar að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 72 þúsund krónur á mánuði á komandi kjörtímabili með því að tengja krónuna við evru, þar sem vextir, vöruverð og þjónustukostnaður munu lækka. Það eru tæpar 900 þúsund krónur á ári ef miðað er við par með tvö börn sem skuldar 31 milljón króna.

Hægt er að lesa stefnu Viðreisnar hér.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Viðreisnar, þar sem áhrif stefnumála flokksins fyrir komandi þingkosningar voru kynnt og hvernig þau verða fjármögnuð. Bæði er litið til áhrifa á ríkissjóð og heimili landsins.

125 milljarðar í auknar tekjur ríkissjóðs

“Við teljum nauðsynlegt og heiðarlegt að sýna kjósendum hvað kosningaáherslur Viðreisnar kosta og hvernig staðið verður við stóru orðin, eins og við höfum alltaf gert. Við erum umbótaflokkur en stöndum fyrir ábyrga hagstjórn. Tekjur ríkissjóðs vegna þeirra breytinga sem við boðum eru auðvitað háðar óvissu og við munum stilla útgjöld af þannig að ríkissjóður verði rekinn í jafnvægi,” segir Daði Már Kristófersson varaformaður Viðreisnar.

Viðreisn áætlar að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 125 milljarða á kjörtímabilinu vegna lægri vaxtakostnaðar ríksins, aukins hagvaxtar og markaðsleiðar í sjávarútvegi. Viðreisn hyggst auka fjárframlög í tiltekna málaflokka, sérstaklega til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála, um samtals 90 milljarða. Af því leiðir að bætt afkoma ríkissjóðs verður 35 milljarðar, til að koma í veg fyrir halla.

Auka framlög til heilbrigðismála um 33 milljarða

Á fundinum kom fram að mesta aukning í útgjöldum ríkisins verði til heilbrigðismála, alls 33 milljarðar á kjörtímabilinu. Útgjöld til velferðarmála aukast um 26 milljarða og til menntamála um 13 milljarða samtals á kjörtímabilinu. Þá vill Viðreisn auka framlög til samgöngumála um 11 milljarða og til nýsköpunar um 7 milljarða. Samtals munu því útgjöld ríkissjóðs aukast um 90 milljarða á meðan tekjur ríkissjóðs aukast um 125 milljarða. Lykilatriði er að auka ekki skuldir ríkissjóðs.

“Það er mikilvægt að tryggja heimilunum í landinu aukalega 72.000 krónur á mánuði. Það munar hverri fjölskyldu sannarlega um. Til viðbótar náum við að skapa svigrúm til þess að ráðast í brýn verkefni sem fólkið í landinu er að bíða eftir. Forgangsmál hjá okkur er að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, minnka skerðingar í almannatryggingakerfinu og efla menntun og nýsköpun. Við sjáum mörg tækifæri til að bæta hag og líðan fólksins í landinu, ef Viðreisn verður í ríkisstjórn,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.