eg

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Formaður Reykjavíkurráðs

Jóhanna hefur tekið þátt í starfi Viðreisnar síðan 2016 og var kjörin formaður stjórnar Reykjavíkurráðs um mitt ár 2018

aron

Aron Freyr Jóhannsson

Varaformaður

Aron hefur verið virkur í starfi Viðreinsar frá fyrstu dögum, hann hefur einnig tekið virkan þátt í starfi Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar

gunnar

Gunnar Björnsson

Gjaldkeri

Gunnar hefur tekið virkan þátt í starfi Viðreisnar til fjölda ára, og hefur verið í hlutverki gjaldkera Reykajvíkurráðs síðan um mitt ár 2018.

Stefna Viðreisnar í Reykjavík

Viðreisn vill frjálslynda, jafnréttissinnaða og alþjóðlega borg. Við viljum að borgin sé vel rekin og að þjónusta við íbúa sé í fyrirrúmi.

FRJÁLSLYND BORG

Við viljum borg þar sem fólk getur notið sín eins og það er. Borg þar sem fólk getur verið skapandi, valið hvernig það býr og ferðast um borgina, rekið fyrirtæki og skemmt sér. Við viljum borg sem hvetur til nýsköpunar og stuðlar að blómlegu atvinnulífi.

JAFNRÉTTISSINNUÐ BORG

Jafnrétti og mannréttindi eru leiðarstef í öllu starfi Viðreisnar. Við viljum borg þar sem íbúar eru jafnir, án tillits til kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars eða annarrar stöðu. Kynferðisofbeldi á ekki að líðast í Reykjavík. Við viljum borg þar sem allir geta upplifað sig örugga.

ALÞJÓÐLEG BORG

Við viljum borg þar sem allir geta notið sín án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, tungumáls, lífs- eða trúarskoðana. Við viljum borg þar sem erlendir ferðamenn eru velkomnir, erlendir sérfræðingar geta fengið vinnu við sitt hæfi, erlendar vörur eru á boðstólum í verslunum og erlend fyrirtæki vilja starfa í. Við viljum borg sem er leiðandi í móttöku hælisleitenda og flóttafólks.

ÞJÓNUSTUBORG

Reykjavík þarf að veita góða þjónustu við íbúa á öllum aldri. Stjórnsýsluna þarf að bæta og nútímavæða, m.a. með aukinni rafrænni þjónustu. Stytta þarf biðtíma, fækka eyðublöðum, draga úr þörf á því á heimsækja stofnanir og sameina úttektir. Auka þarf samtal íbúa og borgar auk þess að bæta aðgengi að upplýsingum.

VEL REKIN BORG

Reykjavík þarf að vera rekin með sjálfbærum, gagnsæjum og ábyrgum hætti. Greiða þarf niður skuldir meðan vel gengur, gæta jafnvægis í fjárfestingum og vera undir það búin að hægst geti á í efnahagslífinu.

 

Atvinnumál

Til að borgin okkar blómstri og laði til sín fólk þarf fjölbreytt atvinnulíf. Viðreisn vill stuðla að nýsköpun, samkeppni, jafnrétti og sjálfbærni í atvinnulífi borgarinnar. Þetta er undirstaða þess að Reykjavík sé samkeppnishæf um lífsgæði við aðrar borgir í heiminum.

ÞJÓNUSTA VIÐ FYRIRTÆKI

Borgin er mikilvægur þjónustuaðili atvinnulífsins, t.d. við hvers kyns leyfaveitingar. Þjónustan er oft svifasein og ógagnsæ. Það þarf að endurskoða og einfalda kerfið með þarfir og þægindi notenda að leiðarljósi.

Öllum erindum innan stjórnsýslunnar á að vera hægt að sinna rafrænt. Þetta á við um allar fyrirspurnir, umsóknir, eða beiðnir um úttektir. Borgin á að beita sér fyrir því, í samstarfi við aðrar stofnanir, að öll fylgiskjöl (t.d. búsetuvottorð, sakavottorð, vottorð frá innheimtumanni ríkissjóðs eða ríkisskattstjóra) geti borist inn rafrænt, óski umsækjendur eftir því.

Umsækjendum um leyfi skal svarað innan tveggja daga um hvort öll nauðsynleg gögn með umsókn liggi fyrir. Skýrt þarf að vera hvenær niðurstaða eigi að liggja fyrir.  Borgin á að setja sér metnaðarfull tímamörk í afgreiðslu umsókna  og standa við þau.

Við viljum bjóða upp á ráðgjöf og útbúa aðgengilega gátlista fyrir ólík rekstrarform, til dæmis: “Hvað þarf ég að gera ef ég vil opna veitingastað? Hvað þarf ég að gera til að starfrækja heimagistingu? Hvað þarf ég að gera til að opna verkstæði?” Í dag er þetta allt of flókið.

Viðreisn vill að stjórnendur borgarinnar og borgarfulltrúar taki reglulega vaktir í þjónustuveri.

Ráð borgarinnar ætti að endurskipuleggja þannig að eitt ráð horfi sérstaklega til atvinnumála.

JARÐVEGUR FYRIR NÝSKÖPUN

Reykjavík á að vera miðstöð nýsköpunar á Íslandi. Til þess að svo verði þarf sérstaklega að  gæta að því að rekstrarumhverfi minni fyrirtækja, ekki síst nýsköpunarfyrirtækja, sé sem einfaldast. Það þarf að vera nægilegt framboð af rými þar sem sprotafyrirtæki í nýsköpun og hönnun geta haft starfsemi.

Reykjavík er helsti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi. Borgin þarf að eiga gott samstarf við ferðaþjónustuna, stuðla að eflingu nauðsynlegra innviða og gera sitt til að upplifun ferðamanna af borginni sé sem best, til dæmis þarf að bæta aðstöðu fyrir rútur og fjölga almenningssalernum. Upplýsingar í almannarýmum, á vegum borgarinnar, skulu vera bæði á íslensku og ensku. Ný umferðarmiðstöð fyrir langferðarbíla skal tengjast borgarlínunni.

Fólk í fríi vakir lengur. Þegar skemmtistaðir loka, ekki síst á virkum dögum, færist gleðskapur oft í íbúðir sem ferðamenn hafa tekið á leigu, með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa í nærliggjandi götum. Lengja má opnunartíma skemmtistaða á afmörkuðum svæðum fjarri íbúabyggð, til dæmis á Grandasvæðinu, til að minnka ónæði miðborginni.

Sveitarfélög eiga að fá sinn hlut í gistináttargjaldi. Eðlilegt er að borgin taki við veitingu rekstrarleyfa fyrir gisti- og veitingastaði frá sýslumönnum til að gera kerfið skilvirkara.

Tryggja þarf gott framboð af húsnæði til atvinnureksturs, ekki síst nútímalegs skrifstofuhúsnæðis fyrir fyrirtæki í þekkingariðnaði. Þá þarf að tryggja að lítil iðnfyrirtæki geti þrifist í borginni en þeim er gjarnan ýtt til hliðar þegar iðnaðarsvæði eru endurskipulögð. Sérstaklega skal styðja við tilraunir til að lífga upp á atvinnuhúsnæði þar sem starfsemi hefur lagst af.

Samkvæmt úttekt Alþjóðabankans er Ísland í 64. sæti þegar kemur að skilvirkni við veitingu byggingarleyfa, meðan Danmörk er í 1. sæti. Fækka þarf skrefum hjá byggingarfulltrúa, sameina úttektir og stytta fresti. Líta má til danskra fyrirmynda í þessum efnum.

Embætti byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og heilbrigðiseftirlits skulu vinna saman að því að flýta málshraða. Sameina skal úttektir opinberra aðila í því skyni að auka skilvirkni og öryggi.

Til að fólk geti fundið vinnu við sitt hæfi í Reykjavík þurfa fyrirtæki, innlend sem erlend, að vilja hafa aðstöðu í Reykjavík. Viðreisn ætlar að bæta samkeppnistöðu Reykjavíkur meðal annars með því að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á seinni hluta kjörtímabilsins.

LEIÐANDI, ALÞJÓÐLEG BORG

Við eigum að keppa að því að alþjóðleg fyrirtæki vilji hafa starfsstöðvar sínar á Íslandi. Lykillinn að því er að vinnumarkaðurinn sé opin hæfileikaríku fólki, óháð þjóðerni. Borgin á að gera sitt í þessum efnum, til dæmis með því að tryggja að leik- og grunnskólakerfið sé í stakk búið til að taka á móti börnum af erlendum uppruna og að sjá nýjum íbúum fyrir gátlista og ráðgjöf.

Allar umsóknir á vegum borgarinnar, hvort sem er vegna atvinnureksturs eða annars skulu aðgengilegar á ensku.

Eyða skal kynbundnum launamun hvar sem hann er að finna og tryggja jafnrétti á öllum sviðum atvinnulífsins innan borgarinnar. Litið skal sérstaklega til að leiðrétta laun fjölmennra kvennastétta innan borgarinnar s.s. í leik- og grunnskólum.

 

Skóla- og frístundamál

Menntun er undirstaða jafnréttis, jafnra tækifæra og velferðar í samfélaginu. Við viljum auka gæði og sveigjanleika í menntakerfinu. Skóla- og frístundastarf ber að skoða sem eina heild, út frá þörfum barnsins.

VINNUUMHVERFI NEMENDA OG STARFSFÓLKS

Við ætlum að bæta aðbúnað barna í leik- og grunnskólum.

Við ætlum að bregðast við flótta úr kennarastéttinni með því að gera sérstakan kjarasamning við kennara Reykjavíkurborgar. Með því má hækka laun kennara og gera staðnað kerfi sveigjanlegra. Þannig gerum leik- og grunnskólana að eftirsóttum vinnustöðum.

Við ætlum að draga úr álagi á leik- og grunnskólakennara, til dæmis með því að koma á fót miðlægri afleysingarveitu. Við ætlum að styðja starfsfólk skóla sem vill hefja kennaranám.

Nemendur eru ólíkir og þarfir þeirra mismunandi. Sumum hentar að vakna fyrr en öðrum, sumum hentar að hefja daginn á líkamsrækt, stundatöflur henta sumum vel, meðan aðrir myndu njóta sín betur í sveigjanlegra fyrirkomulagi. Við ætlum að draga úr miðstýringu og auka faglegt frelsi grunnskólakennara til að gera tilraunir með ólík kennsluform.

Við viljum tryggja að börn, ekki síst börn á miðstigi (5.-7. bekkur) fái samfellda þjónustu í frístunda- og tómstundastarfi. Við viljum skólastarf þar sem frumkvæði og sköpun eru í fyrirrúmi og ætlum að tryggja sjálfstæði skóla til þess að þróa slíkt sjálfir.

REKSTUR

Við viljum öflugt samstarf milli skóla og frístundar. Því þarf að ljúka raunverulegri sameiningu skóla- og frístundasviðs borgarinnar.

Of mikill tími skólastjóra fer í rekstur skóla og ekki nægilegur tími í faglega forystu. Þessu ætlum við að breyta með því að semja um fjárveitingu til grunnskóla til þriggja ára í senn í stað eins árs. Þannig er hægt að auka sveigjanleika og svigrúm til skólaþróunar. Skólastjórar verði fyrst og fremst faglegir stjórnendur skóla.

Við viljum fjölga valkostum í námi og styðjum því fjölbreytt rekstrarform menntastofnana.

Við viljum að leikskólar séu opnir allt sumarið og foreldrar velji hvaða fjórar samfelldu vikur barnið fái frí.

STOÐÞJÓNUSTA

Við ætlum að bregðast við biðlistum með úrræðum fyrir börn með sértækan vanda. Við ætlum að stækka Brúarskóla, sem er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum.

Við vitum að snemmtæk íhlutun skiptir máli og ætlum því að styðja við börn sem þurfa á því að halda óháð því hvort greining liggi fyrir eða ekki. Við viljum stytta biðtíma eftir greiningum og tryggja úrræði að henni lokinni.

Veita þarf stöðu barna af erlendum uppruna sérstakan gaum meðal annars með því að veita fé í námsefnisgerð. Styðja á við bakið á móðurmálskennslu sem skipulögð er af foreldrum barna af erlendum uppruna.

FJÖLBREYTT DAGVISTUNARÚRRÆÐI

Við leggjum ríka áherslu á að fjölbreytt dagvistunarúrræði standi börnum til boða að loknu fæðingarorlofi.

Við ætlum að setja opnun ungbarnadeilda í forgang, til dæmis með því að stækka þá leikskóla sem fyrir eru, bjóða út þjónustuna til sjálfstætt starfandi leikskóla eða styðja við fagaðila til að starfrækja dagvistun  í samstarfi við vinnustaði. Hækka þarf greiðslur til dagforeldra.

Umhverfis- og skipulagsmál

Viðreisn vill borg sem er fjölbreytt, græn og skilvirk. Við skipulag borgarinnar er mikilvægt að byggð, náttúra og samgöngumannvirki, stór sem smá, fléttist saman og myndi sterka, mannvæna heild.

SKIPULAG

Við skipulag nýrra hverfa skal gætt að því að íbúðabyggð blandist verslun og þjónustu, félagsleg fjölbreytni sé tryggð og hverfin tengd við aðra hluta borgarinnar með hágæða almenningssamgöngum.

Ný hverfi rísi við Elliðarárvog, í Ártúnshöfða og á Keldum. Hverfin tengist fyrsta áfanga borgarlínu. Lokið verði við uppbyggingu íbúahverfis í Úlfarsárdal með þeim hætti að hverfið verði sjálfbært hvað varðar þjónustu auk þess sem ljúka þarf sem fyrst uppbyggingu skóla og íþróttamannvirkja í hverfinu. Áfram skal unnið með þéttingu byggðar innan borgarinnar.

Nýjar stofnvegaframkvæmdir tengi saman byggð frekar en að slíta hana í sundur. Með því að færa umferð neðanjarðar skapast rými sem nýta má til uppbyggingar eða til að tengja byggð betur við útivistarsvæði. Dæmi um þetta eru gatnamót Bústaðarvegar og Reykjanesbrautar.

Tryggja þarf hagsmuni íbúa á framkvæmdasvæðum. Bæta þarf upplýsingaflæði til íbúa, fylgja eftir að farið sé eftir leyfum og stuðla að sátt og vellíðan íbúa í nágrenni framkvæmda. Tryggja þarf öryggi og aðgengi gangandi vegfarenda í tengslum við allar framkvæmdir.

Borgarrýmið þarf að vera aðgengilegt öllum, óháð aldri, fötlun eða stöðu að öðru leyti.

SAMGÖNGUR

Við hvetjum til orkuskipta í bílaflotanum til dæmis með áframhaldandi bílastæðafríðindum fyrir vistvæna bíla. Fjölga þarf hleðslustöðvum og huga að uppsetningu þeirra í bílastæðahúsum á vegum borgarinnar.

Við viljum bæta almenningssamgöngur og styðjum uppbyggingu borgarlínu. Stofnleiðir strætó skulu keyra á 7,5 mín tíðni á háannatímum. Við styðjum áframhaldandi samstarf við ríkið um stuðning við almenningssamgöngur. Strætó á almennt ekki að vera gjaldfrjáls, auka má hlutdeild farþega í heildarkostnaði. Frítt verði í strætó fyrir allt að tvö börn undir 12 ára í fylgd með fullorðnum.

Fjölga þarf aðgreindum hjólastígum og hjólareinum. Bæta þarf landupplýsingar um hjólastíga og merkja þá betur. Við viljum að lykilstígar í hjólastígakerfinu fái nöfn.

Góð umferðarstýring stuðlar að betra borgarlífi og gegnir fjöldi bílastæða þar mikilvægu hlutverki.  Viðreisn styður stækkun gjaldskyldra svæða og lengingu gjaldskyldutíma.

Finna þarf innanlandsflugi nýja staðsetningu í grennd við höfuðborgina, með þægindi og öryggi allra landsmanna að leiðarljósi. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri þangað til að sú staðsetning liggur fyrir. Viðreisn telur að nýr flugvöllur í Hvassahrauni sé lausn sem skoða þurfi til hlítar.

Borgin mun styðja við samkeppni á leigubílamarkaði til dæmis með því að beita sér fyrir því að hámark á fjölda leigubíla á höfuðborgarsvæðinu verði afnumið. Liðkað verði fyrir úthlutun bílastæða vegna deilibíla.

UMHVERFISMÁL

Skoðaðar verði leiðir til að draga úr mengun af völdum bílaumferðar til dæmis með takmörkun eða álagningu á notkun nagladekkja. Frítt verði í strætó þá daga sem mengun fer yfir hættumörk. Auka þarf rykbindingu og stuðla að fækkun díselbíla í umferðinni.

Við viljum fækka Sorpuferðum borgarbúa, til dæmis með því að efla grenndarstöðvar og auka tíðni sorplosunar. Við viljum auðvelda íbúum að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi til dæmis með sérstökum hólfum í hefðbundnum ruslatunnum.  Við stefnum að því að gera Reykjavík að plastpokalausri borg. Aftur verði farið að safna jólatrjám.

Bæta þarf verkferla í tengslum við fráveitumál. Upplýsingagjöf til íbúa þarf að vera hröð og heiðarleg.

Huga þarf að reglum varðandi mengun frá skemmtiferðaskipum, í takt við alþjóðlega þróun, og tryggja hagsmuni íbúa Reykjavíkur.

Velferðarmál

Velferð er einn af hornsteinum góðs samfélags. Við viljum tryggja velferðarþjónustu sem byggir á mannréttindum, virðingu, virkni og hjálp til sjálfshjálpar. Við viljum að allir fái notið hæfileika sinna án tillits til fötlunar, veikinda, aldurs, atvinnuleysis eða félagslegra erfiðleika.

AFBRAGÐS ÞJÓNUSTA, EINFÖLD OG AÐGENGILEG

Við viljum einfalda alla vinnu við umsóknir um þjónustu. Öllum erindum á að vera hægt að sinna í gegnum rafræna þjónustugátt. Við viljum þjónustumiðaða stjórnsýslu sem byggir á einfaldleika, lipurð, góðum upplýsingum og skýrum tímaramma.

Mikilvægt er að efla sjálfsbjargargetu fólks sem býr við skerta hæfni. Það er meðal annars hægt með því að nýta hjálpartæki og tæknilausnir í þjónustu, s.s. við eldri borgara og fatlað fólk. Við leggjum höfuðáherslu á þróun tæknilausna til að tryggja sem besta þjónustu, samskipti og upplýsingamiðlun.

Við viljum að borgin hafi frumkvæði að þjónustu, t.d. fyrir börn, fatlað fólk, langveika og aldraða. Með þessu er frumkvæðisskyldu mætt og tryggt að íbúar fái sömu upplýsingar og jafnan aðgang að þjónustu.

ÞJÓNUSTA VIÐ ALDRAÐA

Við viljum byggja þjónustu á virkni og þátttöku aldraðra.

Tryggja verður góða þjónustu fyrir einstaklinga í heimahúsum, s.s. aðgengi, hjálpartæki, endurhæfingu, hreyfingu, fæði og síðast en ekki síst afbragðs heimaþjónustu og heimahjúkrun.

Stefna skal að algjörri samfellu í þjónustu við aldrað fólk. Efla þarf kvöld- og helgarþjónustu, stórbæta böðunarþjónustu og að boðið verði uppá fjölbreyta þjónustu eftir þörfum hvers og eins. Þannig skal tryggt að hugað sé að nauðsynlegum þáttum í lífi aldraðs fólks sem þarf á mikilli þjónustu að halda s.s. með því að fjölga dagvistunarúrræðum fyrir aldraða um 40 .

Viðreisn er opin fyrir fjölbreytum rekstrarformum til að auka fjölbreytni og samkeppni með það markmiði að bæta þjónustu við aldraða án þess að kostnaður aukist.

Framkvæmdar verða kannanir á þjónustu borgarinnar við aldraða og lífskjarakannanir gerðar á tveggja ára fresti að lágmarki. Þetta er gert til að tryggja að þörfum sé ávalt mætt og þjónusta þróuð í takt við þarfir og breytingar á málefnum aldraðra m.t.t. breytinga á lýðfræðilegri þróun.

Gott húsnæði og aðbúnaður er grundvallarþáttur í því að tryggja góða þjónustu fyrir aldraða. Við ætlum að fjölga þjónustuíbúðum á vegum Reykjavíkur um 10 íbúðir á næstu fjórum árum og stytta þannig biðlista.

ÞJÓNUSTA VIÐ FATLAÐ FÓLK

Við viljum tryggja fötluðu fólki góða og samfellda þjónustu. Þetta gerum við með því að vinna á biðlista eftir stuðningsþjónustu og sértækum búsetuúrræðum. Gera þarf þjónustuáætlanir við hvern og einn, tryggja góð samskipti og gagnvirkar upplýsingar og bjóða alltaf tímasett loforð um þjónustu og mæla árangur.

Mikilvægt er að bjóða uppá sértæk búsetuúrræði fyrir fatlað fólk til að lifa sjálfstæðu lífi. Við ætlum að fjölga sértækum búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk um hundrað rými á næsta kjörtímabili í samræmi við þær áætlanir sem liggja fyrir hjá Reykjavíkurborg.

Aukin áhersla verður á persónustýrða þjónustu fyrir fatlað fólk (NPA) fyrir þá sem hana kjósa.

Við leggjum mikla áherslu á sjálfstæði fatlaðs fólk og frelsi þeirra til að ferðast. Við munum tryggja reglulegar þjónustumælingar á ferðaþjónustu fatlaðra og úrbætur í samræmi við niðurstöður með það að markmiði að tryggja gott þjónustustig.

FÉLAGSLEGT HÚSNÆÐI

Aðgengi að félagslegu húsnæði er forsenda þess að hægt sé að minnka álag á fjölskyldur í félagslegum erfiðleikum og tryggja þannig grunn til sjálfshjálpar. Í dag eru tæplega 2000 íbúðir á vegum Félagsbústaða og um þúsund manns eru á biðlista. Við viljum fjölga leiguíbúðum um 350 á kjörtímabilinu.

Við styðjum samstarf við aðila sem vilja byggja upp húsnæði á félagslegum forsendum. Við viljum einnig tryggja lóðir og húsnæði fyrir almennan leigumarkað á viðráðanlegu verði.

MÁLEFNI BARNA OG BARNAFJÖLSKYLDNA

Við leggjum höfuð áherslu á forvarnarstarf til eflingar barna og barnafjölskyldna. Við viljum stórauka samstarf og samvinnu félagslegrar þjónustu, barnaverndar og skóla með tilliti til aðstæðna barna sem búa við veikindi foreldra eða aðrar erfiðar aðstæður. Við ætlum að styðja fjölskyldur í vanda við að takast á við hann.

 

Menningar- og íþróttamál

Fjölbreytt framboð menningar- og íþróttastarfsemi gerir Reykjavík að eftirsóttum stað til að búa á.

MENNINGARMÁL

Reykjavík er sannkölluð menningarborg, hér eru þrjú atvinnuleikhús, tónlistarhús, mýmörg gallerí og ýmsir staðir sem hýsa alls konar list. Reykjavík er ekki bara miðstöð menningar á Íslandi heldur er hún á heimsmælikvarða þegar kemur að framboði af list. Hluti þess að gera Reykjavík að aðlaðandi stað að búa er að hlúa vel að listinni til þess að fólki finnist hreinlega gaman að búa í Reykjavík.

Til þess að list þrífist sem best er mikilvægt að styrkja upprennandi listamenn til að koma list sinni á framfæri við borgarbúa. Reykjavík þarf að styrkja sjálfstæða listamenn.

Borgin þarf fjölbreytta flóru tónleikastaða og húsnæðis fyrir skapandi starfsemi sem víðast í borginni. Auðvelda þarf ferli leyfisveitinga fyrir slíka starfsemi og veita þróunarstyrki, meðal annars til að bæta hljóðvist.

Nýta má húsnæði í eigu borgarinnar, s.s. anddyri sundlauga, undir listaviðburði.

Það er mikilvægt að Reykjavík haldi áfram hlutverki sínu sem alþjóðleg tónlistarborg og eflist enn frekar í fleiri listgreinum á alþjóðlegum grunni.

Það er stefna Viðreisnar í Reykjavík að laða að fleiri alþjóðlega menningar- og listaviðburði.

ÍÞRÓTTAMÁL

Viðreisn styður fjölbreytt íþróttalíf í borginni, íþróttalíf þar sem borgarbúar, óháð aldri, kyni eða stöðu að öðru leyti geta stundað íþróttir eða notið þeirra sem áhorfendur kjósi þeir að gera það.

Jafnrétti á að vera leiðarstef í allri íþróttastarfsemi í Reykjavík. Íþróttafélög í Reykjavík eiga að setja sér viðbragðsáætlun í kynferðisbrotamálum og jafnréttis- og jafnlaunastefnu.

Viðreisn vill að íþróttafélög í öllum hverfum borgarinnar bjóði upp á íþróttatengda afþreyingu fyrir börn sem ekki snýr að afreksíþróttum.

Veita þarf börnum og öðrum með skerta hreyfigetu möguleika á íþróttaiðkun við þeirra hæfi.

Reykjavík skal stefna að því að laða að fleiri alþjóðleg íþróttamót.

 

Rekstur og stjórnskipan

Fara skal vel með fé borgarbúa. Borgin skal rekin með ábyrgum, gagnsæjum  og sjálfbærum hætti og tryggt að svigrúm sé til að bregðast við ef halla fer undan fæti.

EFNAHAGSSTJÓRN

Við viljum ábyrgan og sjálfbæran rekstur. Borgarsjóð á að reka með afgangi í efnahagsuppsveiflu og greiða þarf niður skuldir til að borgin sé undir það búin að hægst geti um í efnahagslífinu.

Eðlilegt er að endurskoða gjaldskrár með reglulegu millibili með tilliti til verðlags og þjónustustigs.

Núverandi stefna borgarinnar er að blása til stórfjárfestinga á toppi hagsveiflunnar en draga svo harkalega úr þeim á næsta kjörtímabili. Mun ábyrgara er að jafna fjárfestingarnar yfir næstu ár, og vera jafnvel undir það búin að auka þær þegar efnahagslífið tekur að kólna. Sér í lagi er stefnan um stórfelld uppkaup á notuðu íbúðarhúsnæði á tímum þenslu á fasteignamarkaði óskynsamleg.

REKSTUR

Borgin á ekki að standa rekstri sem alla jafna telst vera samkeppnisrekstur. Forðast ber ný verkefni sem fela í sér umfangsmikla áhættu fyrir borgarsjóð. Hlut borgarinnar í Malbikunarstöðinni Höfða á að selja.

Fara skal vel með fé borgarbúa. Við ætlum að hafa reikninga borgarinnar opna þannig að Reykvíkingar geti séð jafnóðum í hvað peningar þeirra eru að fara. Við ætlum að sjá til að fjárhagsáætlanir og ársreikningar séu birtir á sniði sem auðvelt er fyrir notendur að vinna með. Búa þarf til mælaborð sem sýnir helstu þætti í rekstri borgarinnar.

Reykjavík skal ljúka innleiðingu jafnlaunastaðals hið fyrsta. Leiðrétta skal laun kvennastétta innan borgarkerfisins. Viðreisn styður aðferðafræði kynjaðrar fjárlagagerðar.

RÁÐ OG NEFNDIR

Fækka skal ráðum borgarinnar með hagkvæmni og hagræðingu í huga. Stjórnkerfis-  og lýðræðisráð skal lagt niður í núverandi mynd og verkefni þess færð til annarra fagráða borgararinnar. Sameina skal ráð borgarinnar þannig að eitt ráð horfi til atvinnu, menningar og íþróttamála.  Viðreisn vill efla íbúasamráð og grasrótarstarf í hverfum en endurskoða þarf starfsemi hverfisráðanna sem þjóna illa tilgangi sínum í núverandi mynd.

HVERT FRAMLAG SKIPTIR MÁLI

Stuðningur þinn er vel þeginn
og kemur í góðar þarfir!

Lágmarksframlag er 750 kr. Ef valin er mánaðarleg greiðsla er hún innheimt þar til þú óskar eftir að greiðslum verði hætt. Reynslan sýnir að flestir kjósa að leggja fram styrk sem nemur 2.000-15.000 kr. á mánuði.

Þau sem kjósa heldur bankamillifærslu geta lagt inn á bankareikning 515-26-470518, kennitala 470518-0650

.